Færsluflokkur: Bloggar
14.6.2009 | 16:14
Reynitrén og dýrin mín
Yndislegu reynitrén mín byrjuð að opna fyrstu blómin sín þetta sumarið. Ég gjörsamlega elska þessi tré sem búa í bakgarðinum mínum. Dúfa mín og Edda koma með að skoða nýju reyniblómin sem voru að byrja að opna sig.
Ég man eftir þegar þetta tré var að byrja að vaxa í smáskoru í klettinum. Við mamma vorum alveg á því að það yrði nú ekki mikið úr þessu tré að reyna að vaxa á svona stað. En núna rúmlega 40 árum seinna er það ansi stórt margstofna en mjög fallegt og í miklu uppáhaldi hjá mér eins og stóra reynitréð sem vex þarna rétt við hliðina.
Það er mikið af reyni í hverfinu og eftir rigningu eins og núna, þá ilmar allt! og birkið í Hellisgerði bætir um betur og leggur til sinn ilm í viðbót. Dásamlegir dagar. Dúfa og kisurnar hennar skoppa um klettana eða standa og þefa út í loftið. Ég veit að þær kunna svo sannarlega að meta svona fegurð líka.
Stærra reynitréð í bakgarðinum, það er miklu hærra en húsið. Þegar ég var lítil skotta klifraði ég í þessu tré, svo það hlýtur að vera orðið ansi gamalt. Dásamlegt gamalt og viturt tré enda nýt ég þess að ræða við það á hverjum degi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.6.2009 | 12:15
Tilveran bíður manni uppá svo margt óvænt og ævintýralegt :-)
Þessa dagana er ég að vinna að lokaútfærslu á Litlu álfaspilunum mínum. Ég fæ góða aðstoð frá honum Magna mínum Víkingakisa og auðvitað fleirum sem sjást ekki á mynd ...
Um daginn bauðst mér að prufukeyra frumútgáfu af spilunum í Gullsmiðjunni á Lækjargötu í Hafnarfirði. Við gerðum þetta í tilefni Bjartra daga sem nú standa yfir í Hafnarfirðinum. Sátum þarna eina kvöldstund og ég las í spil fyrir gesti og gangandi.
Þetta var svo skemmtilegt kvöld
Og nú er ég að leggja lokahönd á spilin áður en þau fara í prentun ... vonandi gengur allt upp ... Skyldi þetta svo verða að raunveruleika? gamall draumur að fá að rætast? í alvörunni?
... smá svona spenna ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.6.2009 | 10:27
Friðsamlegur stórviðburður
Samtrúarleg friðarstund í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.5.2009 | 11:11
Sól og regn, von og Líf
Eftir bjarta sólargleðidaga birtist rigningin með rokið með sér ... aftur. Brosin sem höfðu myndast svo fallega á andlitunum virðast jafnvel láta undan síga. Ég fór út að spjalla við plönturnar og fleiri sem á vegi mínum urðu, vita hvort ég fyndi ekki bros og von, inn á milli fjúkandi laufblaða og regnblautra blóma.
Ég á pínulítinn garðbleðil á móti suðvestri, þar sem ég hef safnað ýmsum runnum og einu tré sem stendur upp úr hinum gróðrinum. Það er hún Stella kirsuberjatré.
Hún lét nú ekki rokið mikið á sig fá, sagðist vera þakklát fyrir sólardaga síðustu viku og nú gæti hún blómstrað og brosað framan í veðrið.
Fjallarósin getur nú teygt sig ansi vel og sýnt blómknúppana sína stolt mót himninum.
Niðri við moldina sést, þegar betur er að gáð, í sólberjarunnann sem ég stakk niður til geymslu á milli rósanna. Hann er lítið áberandi og hvarflar ekki að honum að teygja sig og reygja eins og hin háu kirsuberjatré og rósarunnar. Niðri við jörðina brosir hann sínum hljóðlátu, lítt áberandi blómum en þau lofa þó berjum þegar líður á sumarið.
Maður skyldi ekki vanmeta hljóðlát bros og von sem lítt er áberandi.
Hér lifa saman í sátt og samlyndi, páfarós og lísurós. Þær skipta með sér sumrinu til blómgunar svo að báðar fái fulla athygli fyrir brosin sín.
Nú fer tími páfarósarinnar að hefjast. Allt fullt af litlum komandi brosum sem munu gleðja alla sem kíkja við.
Meira að segja utangarðsblómin blómstra en þau varast að láta heyra í sér. Standa bara þarna steinþegjandi utan við lúna litla garðvegginn og blómstra fyrir sig og þá sem hugsanlega beygja sig niður til að taka eftir þeim, á leiðinni framhjá.
Túlipanarnir voru ekkert að fela sig og brostu háværum fallegum og stoltum litum framan í þá litlu sólarglætu sem kíkti á okkur.
Hún Vala mín er ekkert mjög hógvær þegar kemur að brosum. Hún lætur bara vaða og gengur jafnvel framfyrir hið stórbrosandi kirsuberjatré, án þess að hika!
Þau eru ýmis brosin allt um kring. Lífið er alltaf fullt af von og gleði. Stundum skella á okkur gleðistundir með háværum og fallegum gleðiatburðum. En stundum þurfum við að leita aðeins betur, jafnvel undir og niður og á bakvið...
En það má alltaf finna von og Líf. Þessi burknabörn rúlla sér upp úr jarðvegi liðins árs og lofa góðu um gróskumikinn vöxt á þessu ári.
Þessi purpurabroddur var einungis lítil döpur 5 cm grein með 3 litlum laufum, þegar við settum hana þarna niður fyrir tveimur árum. Ég fékk meira að segja á mig glott frá þeim sem þóttust nú vita betur en að gefa þessum álkulega sprota séns. En nú vex hann í allar áttir, hraustlegur og glaður og gantast við lágvöxnu blómálfarósina sem ætlar að blómstra seinna í sumar.
Grænn er litur heilunar og vaxtar. Notum okkur græna tíma Náttúrunnar og söfnum okkur gleði og Lífi í hjartað. Regnið hreinsar og vindurinn feykir burt því sem ekki er þörf. Áður en við vitum af skín sólin aftur og þá er gott að vera viðbúinn með opið hjarta og gleði í sálu. Þannig vöxum við áfram upp á móti himninum og gefum af okkur bros og gleði á leiðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.5.2009 | 20:30
Hún Stella kirsuberjatré ... ;-)
Sól og hamingja marga daga í röð! Þvílíkt dekur hjá Lífinu
Og kirsuberjatréð ... já það er orðinn djókur fjölskyldunnar, vina minna og nágranna hversu mikið ég elska og tala um þetta litla tré. og ég ætla náttla bara að mata þann djók! það er nauðsynlegt að brosa svo hér heldur sagan áfram:
Fyrir helgina meðan enn var "haust" og rok, vann ég í því með sjálfri mér að sætta mig við að litla kirsuberjatréð mitt, hún Stella, ætlaði ekki að blómstra í ár. Hún stóð kröftug og fullt af laufi kíkti á íslenska vorið en það sáust engir knúppar.
En svo um helgina, þessa dásamlegu Eurovisionsigurgóðviðrissólarhelgi, tók ég eftir knúppum á Stellu!!!
Svona leit þessi grein út í morgun 18. maí. Svo fór ég í bíltúr ...
... og Stella brosti SVONA mikið þegar ég kom til baka um miðjan dag
Þegar við fjölskyldan vorum að borða kvöldmatinn úti í litla garðinum, þá brosti hún Stella alveg útí bæði ... og þetta er bara byrjunin.
Hún Stella mín er náttúrulega alveg yndisleg að blómstra svona fyrir mig einmitt þetta vor. Og knúpparnir eru í hundraða tali! þannig að sagan er ekkert búin sko
En aðalblómið í mínum litla garði er elsku ömmuhjartkrúttið hún Embla mín Sól Þarna stendur hún fyrir framan Stellu að syngja fyrir okkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.5.2009 | 18:57
Dásamlegur dagur í sveitaheimsókn; lömb, kindur, naut og hestar :-)
Við amman og afinn fengum Emblukrúttið okkar lánaða í dag og fórum með hana í sveitaferð. Við heimsóttum Bergþóru vinkonu og Sigurbjörn á Kiðafelli í Kjós og fengum að kíkja í fjárhúsið.
Emblu Sól fannst hún öruggari í fanginu á afa svona til að byrja með ...
... enda voru holdanautin stór og myndarleg.
En aðeins nokkrum mínútum seinna var kjarkurinn algerlega kominn og hún ljómaði litla stúlkan og skoðaði vel "hárið á hestinum"
... amman ljómaði kannski ekkert mikið minna
Ljúflingurinn hún Laufa heilsaði vel og hlýlega upp á okkur.
Bergþóra sýndi Emblu litla nýfædda lambið og útskýrði ýmislegt fróðlegt fyrir borgarbarninu. Enda hafði Embla mikið að segja á leiðinni heim og þegar heim var komið
Mér sýnist vera kominn upprennandi bóndi í familíuna. Það þætti henni ömmu hennar ekki leiðinlegt
Eftir notaleg knús og klapp, fróðleik og skemmtilegheit í fjárhúsinu var okkur boðið heim í kaffi, spjall og heimabakaðar kræsingar. Embla Sól og Sigurbjörn "litli" Hrafn léku sér saman að dótinu hans og landnámshænurnar vöppuðu í kringum húsið og vöktu heilmikla lukku líka.
Þetta var yndislegur dagur. Kærar þakkir elsku Begga, þetta var alveg ógleymanlegt ævintýri að fá að kíkja í "alvöru hús". Ómetanlegt fyrir litla borgarbarnið og algjört nostalgíukast fyrir ömmuna
Knús og kveðjur og hjartans þakkir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.5.2009 | 10:11
Lífið í vorinu
Dásemdar fegurðurdagur í dag. Sólin skín og tré og runnar brosa, fuglarnir syngja hljóðlega af hreiðrum sínum og náttúrverurnar vinna sín vorverk glaðar, raulandi hálfum hljóðum. Himininn svo fallega bjartur og loftið svo tært eftir veður undangenginna daga.
Litla kirsuberjatréð mitt heldur mér í vonarspennu, skyldi það blómstra í ár eða eru þetta eingöngu lauf?
Hvort heldur sem er þá er mikill lífskraftur að verki í litla trénu mínu. Fagrir trjáálfar dansa og flögra, vinna og gleðjast yfir góðum vexti heimilis síns og lífgjafa. Ein könguló á heima í þessu tré, ég fylgist með henni vaxa, hún ætlar að sjá um óæskilega óværu sem hugsanlega hefur boðað komu sína. Samvinna, það er það sem verkar best
Það er hins vegar aldrei launungamál að stóri reynirinn minn blómstrar á bakvið hús. Þetta dásamlega fallega gamla tré stendur alltaf fyrir sínu, hver árstíð með sitt hlutverk og sína fegurð.
En það er fleira sem fylgir vorinu. Hún Vala mín .... hún er eitthvað orðin hrifin af "Blörraða gaurnum" aftur...
Hér situr hún og hlustar, sá blörraði er hérna fyrir neðan svalirnar og "syngur" og annar stór, loðinn svartur og hvítur bíður við hornið. Já það eru tónleikar í lagi í hverfinu þessa dagana
Já Vala mín fagra litla glyðra, það verður fjör á heimilinu aftur og nýbúið ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.5.2009 | 10:51
Flott myndlistar- og hönnunarsýning hjá FG
Við fórum á frábæra útskriftarsýningu listnema í Fjölbrautarskóla Garðabæjar. Sýningin stendur yfir frá föstudegi 1. maí til sunnudags 3. maí í Hönnunarsafninu við Garðatorg í Garðabæ.
Dóttir mín hún Sirrý Margrét og Smári kærasti hennar sýndu þessi verk: Sýnishorn af fullorðins teiknimyndasögu sem er í smíðum (á veggnum) og barnasaga á lokastigum vinnslu, í bók.
Sirrý og Smári með Emblu Sól dóttur sína. Embla elskar þessa ævintýrasögu um Ask og prinsessuna sem vonandi verður gefin út í sumar eða haust
Þessi sýning er mjög fjölbreytt og alveg frábær! Mikið eigum við af hæfileikaríku ungu fólki í dag sem vonandi fær að njóta sín og við að njóta hæfileika þeirra í framtíðinni.
Þarna sést í kennarann Stefán Jónsson, hann á hrós skilið fyrir greinilega góða kennslu með opnum huga og leyfir hverjum og einum að þróa sína leið.
Gleðin var allsráðandi eins og sést hér á andliti Sirrý Margrétar
Endilega skellið ykkur á sýninguna um helgina, opin 14 - 18. Gengið inn ofanvert við Garðatorg eða upp hringstigann frá torginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.4.2009 | 19:45
Rigningin er líka góð :-)
Við vorum örugglega flest komin í vorskapið, búið að kjósa, trén að bruma og vorlaukar að blómstra. En þá hellist yfir okkur rigning og rok. En það má ekki gugna, vorið er í fullri vinnslu og það er ýmislegt fagurt og yndislegt í rigningunni
Hið helga tré Íslands; Ilmreynirinn er svo sannarlega í vorhugleiðingum og lætur enga rigningu eða rok stoppa það af. Þessa mynd tók ég áðan af trénu sem mér þykir svo óendanlega vænt um enda alin upp með þetta tré í garðinum. Þetta tré er í rauninni heil fjölskylda af trjám sem vaxa þétt saman og fylla bakgarðinn minn
Magni minn litli Víkingakisi fór með mér út að athuga vorið og gróðurinn. Honum fannst full blautt fyrir sig úti (ekki segja honum en hann soldið pjattaður)
Efti mikinn þvott og þurrk fann hann hinn fullkomna stað og lagði sig á peysunni minni við hlið mér í sófanum Yndislega krúttið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2009 | 15:13
Kosningaúrslitahugleiðing ...
Embla Sólin mín passar hann Sigurð sinn vel þar sem hún tyllir sér úti í garði á leið sinni á lífsins ferðalagi.
Hún er glöð og hamingjusöm litla stúlkan eins og vera ber. Hún veit að fullorðna fólkið er að taka til og byggja upp til að gera bjarta framtíð hennar mögulega. Hún er full trausts og tilhlökkunar því hún veit að fullorðna fólkið mun hafa vit á að byggja upp gott og heilbrigt mannlíf á landinu hennar, áður en hún verður fullorðin.
Friðar Dúfan mín og Magni Víkingakisi sofnuðu vært á miðri kosninganótt þegar ljóst var að það er í lagi að treysta og trúa á réttláta uppbyggingu samfélagsins. Nú verður byggt upp í rétta átt, á sanngjarnan hátt og ALLIR fá að vera með í Nýju Íslandi sem byggir á jöfnuði allra landsmanna og framtíðar kynslóðirnar meðtaldar.
Eftir úrslit kosninganna síðustu nótt langar mig að minna á draum sem mig dreymdi í mars og skrifaði hér
Ég geng brosandi inn í bjart vorið og þó að komi vorhret og él, þá veit ég að þau endast ekki lengi. Við erum á réttri leið, við höfðum kjark til að breyta ....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)