Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Himnaveran flýtur hjá....


Skýjavera yfir Hellisgerði 1000
 
Hún flýtur áfram á bakinu og lætur léttan blæinn feykja sér yfir borg og bý. Horfir stöðugt uppávið, á hvað horfir hún? Hvað sér hún þarna uppi? Skýjaveran fagra má ekkert vera að því að segja mér hvert hún er að fara en áfram fer hún í sínum ofurrólegum draumkenndum himnaflugi.
 
 
Minni líka á undirskriftalistann "Leiðréttum kjör öryrkja og aldraðra"  
 
Það eru komnar 3676 undirskriftir núna en betur má ef duga skal. 
 

"Ein" í garðinum ...

Yndislegt gluggaveður! Sólargeislarnir læðast inn um gluggann, kitla mig í nefið og kalla mig út að leika. Auðvitað hlýði ég því, klæðist þykkri peysu og ullargrifflum og fer út í garð með myndavélina. Fyrst rakst ég á ástfangin "gömul hjón"

 

garðurinn tvö hjörtu 600
Þau voru svo falleg, ein eftir á greininni en héldu fast og létu ekki vindasama daga og úrhelli úr öllum áttum hafa áhrif á sig. Þau brostu bara og þökkuðu Guði fyrir sólargeislana sem loksins létu sjá sig. 

 

Ég var auðvitað ekki lengi ein með myndavélina, fékk dygga aðstoð ferfættu barnanna minna.  Þau þurfa alltaf að reyna að sjá hvað ég er að sjá.

 

garðurinn Edda og Albus 1000
Þau eru svo frábær félagsskapur og "knúsauðugur" Wink Svo eru þau líka mjög dugleg að spjalla og segja manni sögur úr hverfinu af hinum ferfætlingunum og grænu álfunum í Hellisgerði. Alltaf eitthvað um að tala á þeim bænum.
 
garðurinn Edda með geislabaug 1000
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Eitt hefur hún Edda mín litla samt ekki viljað segja mér og það er hvort von sé á barnabörnum á heimilið hmmm Ég nefnilega sá til hennar og ekki eins, heldur tveggja "góðvina" hennar um daginn. Mér sýnist hún eitthvað farin að þykkna um miðjuna en hún benti mér nú bara pent á að líta í spegil FootinMouth Og svo pússar hún bara geislabauginn sinn og segir ekki meir um það ...!
 
 
 Hún hætti samt ekki að tjá sig um önnur mál. Já, maður ætti kannski að hlusta betur á hana Eddu litlu, hún geymir ýmsa visku þó ekki sé hún margra vetra. Við gengum saman um garðinn og Edda litla hafði ýmislegt til málanna að leggja, til dæmis benti hún mér á að....
 
garðurinn engill að vökva 1000 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
... það væri ekki nóg að hafa engil sem vökvar rósirnar, ef maður leyfir honum að vökva arfann með!
 
Einum of stórt vit fyrir lítinn kött! ... var þetta rósin í mér eða arfinn sem talaði núna? ShockingFootinMouth
 
 
 

Öryrkjar og eldri borgarar

Í allri þessari umræðu undanfarið um endurkröfu Tryggingastofnunar frá öryrkjum og eldri borgurum, hefur maður heyrt ótrúlegustu sögur. Það er svo algjörlega löngu tímabært að stokka upp allt þetta kerfi. Einfalda og lægfæra og nútímafæra kerfið. Ég hef nú trú á því að það sé verið að vinna að þessu en þetta má ekki taka of langan tíma. Og þeir sem eru að vinna að endurskipulagningunni þurfa að vita frá fyrstu hendi (frá lífeyrisþegum) hvað er að. Og vinna svo vonandi samkvæmt því að lægfæringum.

Ég set hér inn sögur sem mér voru sendar í kommenti við aðrar færslur hjá mér, sendandinn kallar sig Elísu. Það skiptir ekki máli hver manneskjan er og það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk vill nafnleynd. En saga hennar er svona:

"Ég fékk reikning upp á 750.000,- frá TR vegna eingreiðslu frá lífeyrissjóðnum mínum.  Þar sem reiknað er út frá brúttótekjum, skulda ég stofnuninni mun meira en ég fékk í vasann frá lífeyrissjóðnum, sem fór nota bene beint inn á höfuðstól lánsins sem ég þurfti að taka meðan ég var ekki að fá reglulegar greiðslur.

Svona nokkuð getur bugað mann.  Því meira sem ég reyni að vinna, því meira lendi ég í mínus hjá TR.  Ég er föst.

Hvar er Jóhanna með loforðin sín?  Hennar tími kom, hvað með okkar? "

Elísa"

 

Önnur sendi þessa inn á komment hjá mér:

"Ég á að endurgreiða kr. 294.927.- Fyrir er ég að greiða niður eingreiðslu sem ég fékk frá TR í upphafi, vegna þess að mér voru reiknaðar bætur  aftur í tímann. Þessa eingreiðslu átti ég svo að endurgreiða þegar ljóst var hvað ég fengi úr lífeyrissjóðnum mínum. Eingreiðsluna hafði ég notað til að greiða upp lífeyrissjóðslán sem ég var með á bakinu en langaði til að losna við. Þannig að ég samdi við TR um að taka mánaðarlega af mér fyrir endurgreiðslu eingreiðslunnar. Svo bætast þá þessi tæp þrjúhundruð þúsund við "skuldina", að því er mér virðist. Annars er ekki vel gott að botna í þessum útreikningum TR. Ég veit það eitt að enginn er ofsæll af þeim bótum sem stofnunin greiðir, þó sumir virðist álíta það sem fara með málefni hennar. Gréta "

 

 

Hafið þið fleiri slíkar sögur að segja? Ég mun svo koma þeim áfram til þeirra sem vinna að okkar málum.

Munið svo að kvitta á UNDIRSKRIFTALISTANN  það eru komnar 3319 undirskriftir!!! Jibbý!!! en betur má ef duga skal og við höldum áfram að minna alla á og hjálpa þeim að kvitta sem hafa ekki tölvu til umráða.

 

Góða helgi elskurnar

Ragga fjöryrki 


Fuglasöngur og haglél

 

þröstur 3 290

þröstur 171

 Í dag horfði ég út um gluggann og sá sól skína í heiði! Hélt að nú væri sko tækifærið að "hlaupa" út með myndavélina. Þegar ég var komin í peysu og úlpu og skó og grifflur .... þá var komið haglél! og svo slydda og svo rigning og..... æ, það er víst íslenskt haust. hahaha 

Ég ákvað að fá mér bara góðan kaffisopa og skoða myndirnar sem ég tók í Hellisgerði um daginn.

Á meðan ég var að fletta í gegnum myndirnar á tölvunni heyrði ég þennan yndislega söng fyrir utan gluggann. Ég greip myndavélina og smellti nokkrum myndum af þröstunum. Æ, hvað er yndislegt að horfa á þá borða reyniberin og þeir syngja í kór með öllum hinum smáfuglunum sem búa hérna í kring. Þvílík dásemdar paradís. 

 

logandi runni 1000

 Logandi gulur runni. Svo allt öðruvísi en allt í kringum hann. Ætli honum leiðist að vera sá eini guli? eða ætli hann sé kannski bara ánægður með það? Það er auðvitað fjölbreytnin í þessu sem öðru sem gefur lífinu gildi.  

þröstur 2 171

 

 

 

Fuglarnir syngja allir áfram saman í kór og raddir þrasta, stara, þúfutittlinga og glókolla og gott ef ekki heyrðist í englum inn á milli, mynda svo fallegan samhljóm að maður fær tár í augun af einskærri hamingju. Fiðrildi flögra í hjartanu og sálin svífur með hljómunum. Meira að segja kettirnir liggja bara og lygna aftur augunum og svífa inn í draumaheima.

 

Lífið er svo dásamlegt Joyful

 

 


3000 undirskriftir!!!

Þetta eru alveg frábærar undirtektir!!! Svo höldum við áfram bara og söfnum fleirum. Þeir sem ekki eru enn búnir að skrifa undir geta gert það hér fyrir neðan. Og ef fjölskyldan þín, vinir eða vinnufélagar hafa ekki enn skrifað undir, þá endilega minna á og senda fleiri mail eða hjálpa þeim að kvitta í gegnum tölvuna þína til dæmis Joyful

UNDIRSKRIFTALISTINN 

 

Hellisg. ljosgeilsa runni 1000

Ein haustmyndin enn úr Hellisgerði. Kannski er þessi runni að tala til okkar. Hvað ætli hann segi? 

 

 


Rigning og krútt

Það rignir enn og blæs, þetta er eiginlega alversta veður fyrir svona skrokk eins og minn. En það þýðir ekki að tuða, enginn nennir að hlusta á það. Svo ég sit og sauma, það er alveg frábært að hafa svona skemmtilegt að dunda við. Er að sauma haustlita Hellisgerði með frjálsri aðferð,  semsagt, ýmsar tegundir af garni og sporum og hugmyndaflugið látið ráða. Rosa skemmtilegt! Smile

Dótturdóttir mín, eins árs, leikur sér á gólfinu og talar og talar við bangsa og kubba og les upp úr bókum.... það skilur náttúrulega enginn hvað hún segir Wink .... nema þetta sé sérstakt bangsamál, hmmm það gæti auðvitað vel verið. Joyful Hún er allavega alveg krúttust InLoveHeart

 

litla krúttið 1000
 
 
Svo minni ég á undirskriftalistann, þar sem skrifum undir að við styðjum það að öryrkjar fái að lifa mannsæmandi líf (við erum ekkert að biðja um meira sko) Ýtið HÉR

 


Við þögnum ekki fyrr en....

Það verður ekki þagnað og þið fáið ekki frið fyrir okkur fyrr en við höfum fengið leiðréttingu á okkar málum. Það eru harkalega framin á okkur og okkar mökum, mannréttindabrot og ég bara neita að trúa því að ekkert verði gert núna. 

Ef þú sem þetta lest ert ekki búinn að skrifa undir, geturðu gert það hér:  UNDIRSKIRFTALISTINN 

1762 hafa nú skrifað undir!!! 

Bestu baráttukveðjur Wizard

Ragga fjöryrki 


mbl.is Öryrkjar fram til orrustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöryrkjaundirskriftir, rigningarrok og eldstormar

Undirskriftalisti fjöryrkjanna hefur gengið rosalega vel! Komnar 1647 undirskriftir! Smile 

Þeir sem ekki eru búnir að kvitta undir geta gert það hér   og lesa svo um þetta átak í 24 á morgun. Heiða Björk og Ásdís eiga heiður skilinn fyrir að starta þessu öllu saman. Húrra stelpur!!! InLoveJoyful

 

Svo langar mig að biðja ykkur að senda styrkjandi orku og góðar bænir til þeirra í Kaliforníu. Vinkona mín býr í San Diego og er á hættusvæðinu vegna eldstormanna. Hún verður sennilega ein af þeim sem verður flutt í burtu seinna í dag. Hún lýsti fyrir mér í símann áðan hvernig svartur reykskýjaveggur væri hennar útsýni núna.... Crying      allt í einu varð okkar blauta rok ekkert mál, eftir að hafa talað við hana vinkonu mína þarna í eldstorminum. Bænir til þín elsku Susan Halo

 

En baráttukveðjur fjöryrkjar!!!Wizard

Ragga fjöryrki 


Skírnarsaga

Litla yndislega dótturdóttir mín var skírð um daginn. Loksins! Hún hvíslaði að mér frásögn af deginum, eins og hún upplifði hann:

"Ég heiti Embla Sól og varð eins árs gömul í lok september. Ég verð að segja ykkur frá skrítinni reynslu sem ég varð fyrir. Viku eftir afmælisdaginn var ég skírð, í stofunni hjá afa og ömmu í Hafnarfirði. Amma mín var líka skírð í sömu stofunni fyrir rosalega mörgum árum síðan. Hún er orðin svo gömul, skilurðu, alveg meira en fjörtíu, þú veist.Tounge

Ég hafði heyrt að það ætti að "skíra" mig en ég vissi nú ekki alveg hvað það þýddi ... þá ... Það kom fullt af fólki, allar ömmurnar og afarnir og frænkur og frændur og svoleiðis. Allir voða fínir og glaðir og fullt af tertum, hnallþórum og kaffi á borðunum en ekkert mikið sem ég mátti borða af því, eitthvað barnamatarsull og svo smá múmínkex.

Það kom líka maður sem ég hef aldrei séð áður, hann var í síðum kjól með risastórt hálsmen .... Það þýddi greinilega eitthvað voða mikið að hann var þarna. Allir horfðu af eftirvæntingu á þennan mann og svo á mig... hvað var nú í gangi? Lítið vissi ég þá..."

Embla Sól skírð

Mamma hélt á mér og pabbi stóð við hliðina á okkur öðru megin og hinum megin stóð maðurinn í kjólnum. Hann hélt á bók og talaði og talaði...  Svo var hann alltaf að benda á mig og gera einhver merki og pota puttunum alveg rétt við andlitið á mér. Ég skildi nú ekki alveg hvað hann var að gera með eitthvað voða mikið handapat út í loftið. Það var stór skál á borðinu, þau kölluðu borðið allt í einu altari...  og vatn í skálinni, ég hélt fyrst að þetta væri fyrir kettina en neeiii..... 

Maðurinn í kjólnum byrjaði allt í einu að setja aðra hendina sína yfir vatnið og skálina og tala við það!?! Er hann ekki í lagi? Hann er með algjört málæði, ég kann sko ekki svona mikið af orðum.  Hann vissi meira að segja hvað ég heiti! Hvernig veit hann það?

Svo allt í einu dýfði hann hendinni ofaní skálina! og tók upp vatn og sagði eitthvað: "Í nafni föðurins..." og sullaði vatninu á mig! Ofan á hárið mitt! Faðir minn var þarna og gerði ekki neitt!  nema brosa.... ?  Á meðan talaði maðurinn í kjólnum áfram.  Og svo, gerði hann þetta aftur! Meira vatn á hárið á mér! "... sonarins...." ??? ég fann einhvern skrítinn kitlandi straum fara yfir mig, eins og það fylgdi vatninu....   

Jón Arnar frændi minn og jafnaldri var þarna hinu megin í stofunni. Ég leit á hann og bað hann að hjálpa mér, hann vinkaði og kallaði til mín.... en það hlustaði nú enginn á okkur, fullorðna fólkið brosti bara Woundering. Ég sá að það var ekki mikla hjálp að fá frá þeim, svo ég reyndi bara að redda þessu sjálf með því að segja manninum að þetta væri alveg óþarfi, ég væri nýkomin úr baði. Og í alveg nýjum og hreinum kjól, sem hann sullaði svo bara á!  En nei.., enn einu sinni setti hann vatn í lófann og sullaði ofan á hausinn á mér og... meiri kitl niður höfuðið..., eða skrítinn straumur....  "... og heilags anda!" sagði maðurinn í kjólnum ákveðinn.   Þá fékk ég nóg og ýtti honum frá og heimtaði að fara bara til pabba míns, hann var lengra frá kjólamanninum. Maðurinn hélt samt áfram að tala og tala .... allir í stofunni horfðu á okkur brosandi með tár í augnkrókunum og virtust voða ánægðir með hann og tóku svo í hendina á honum og allt. Ég skil þetta ekki. Er þeim alveg sama þó ég sé rennandi blaut á hárinu, ...í nýja kjólnum mínum ... með skrítinn straum ...?

En seinna um daginn þegar allir voru farnir nema mamma og pabbi og amma og afi, þá fann ég skrítna strauminn, sem kom með vatninu, fara niður skrokkinn minn og  í fæturna á mér. Fæturnir á mér urðu skyndilega styrkari og kraftmeiri... og ég fann..... að ég gat gengið!!!!  Ég gekk fram og til baka um alla stofuna aftur og aftur .... fram og til baka og gat sjálf náð í múmínkexið!!. Váááá!!!

"Ég get gengið, ég get gengið!! W00t Það ættu sko allir að láta skíra sig!!!"

 


Spurningin um hver græðir mest, er ekki rétt spurning. Það ætti að spyrja: hverjir hafa minnst?

Í dag er mikið talað um hver græðir mest og hver á nú meiri pening eða hefur meira í laun en einhver annar. Ég verð að segja að mér er svo nákvæmlega sama, það er ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er hvaða hópur landsmanna hefur minnst?! Hvernig á sá hópur að komast af? Sá hópur þjóðarinnar sem síst getur barist fyrir rétti sínum. Sá hópur sem leggur til samfélagsins með því að vera til og vilja gjarnan fá að vera meira með í því samfélagi sem hér er. Ég er auðvitað að tala um öryrkja.

Við þurfum á þessum tímapunkti, sem vel stæð þjóð, að ákveða hvert við ætlum að stefna með þessa þjóð og þetta land. Viljum við ekki að við sem búum í þessu landi njótum öll ávaxtanna og fáum að lifa mannsæmandi lífi?

Hellisg. fjöldi stíga 1000

Við þurfum að velja þá leið sem við viljum að þessi þjóð gangi. Lítum innávið, hvað sjáum við þar? Ég trúi því að við sem skynsamt og hjartagott fólk, sjáum þegar við leitum eftir því, sjáum að við viljum að ALLir geti lifað hér saman sómasamlegu lífi. Allir hafi nóg að borða, öruggt húsaskjól og traustan aðgang að heilbrigðiskerfinu.

Þegar við höfum játað með sjálfum okkur að það sé þannig þjóðfélag sem við viljum, getum við valið þann rétta veg sem hentar okkur...

Hellisg. kisa gengur stíginn 1000

...og gengið af stað ótrauð að sameiginlegu markmiði þjóðarinnar. Ég er sannfærð um að allflestir sem skoða hjarta sitt, vilja að hér fái allir að lifa vel og í sátt hvert við annað. Að ávextir lífsins séu fyrir alla, líka fyrir þá sem eiga erfiðast með að berjast: öryrkja. Við erum líka hluti af samfélaginu og höfum rétt á að lifa með fullum mannréttindum eins og aðrir.

Hellisg. ljós hinumegin 1000

Tökum okkur nú á, stefnum saman inn á veg ljóssins þannig að við getum öll notið geisla sólarinnar.

Þetta er hægt og við getum það núna... saman

Ég minni á undirskriftalistann þar sem farið er fram á sjálfsögð mannréttindi fyrir öryrkja HÉR

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband