Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
4.4.2008 | 21:21
Ég spyr og Náttúran svarar...
Í kvöld sest sólin kyrrlát og hljóð í rósbleika skýjarönd. Fegurð himinsins fær mig til að hugsa um allt sem er í gangi í huga mér þessa dagana, það er hreint ekki svona kyrrlátt þar. Því það er margt spennandi, ógnvekjandi, jákvætt, kvíðvænlegt, fjörugt og skemmtilegt sem fer þar um.
Stundum, eins og núna, veit ég ekki hvort ég á að stökkva eða staldra við. Draumarnir kalla en Óvissan hikar og ég veit ekkert á hvort þeirra ég á að hlusta. Þá lít ég upp í fallegan himininn og spyr hvað ég eigi að gera. Það leið ekki á löngu þar til þeir mættu til mín bræðurnir Huginn og Muninn og báru mér skilaboð ...
"Staldraðu við", sagði annar þeirra. "Tíminn er ekki alveg kominn."
Stuttu seinna sagði hinn: "Stökktu!!!" .....
?!?
... og hvað geri ég? Fer í flækju, nema hvað. Hvernig á ég að vita hvor er hvað, hvor þeirra hefur rétt fyrir sér? Hvað gerir maður við svona svör?! Þolinmæðin týnist og óþreyjan tekur við...
... en áður en ég tapa ró minni algjörlega, ákveð ég að leita eftir nánari svörum. Ég fer ég út í garð og ræði við trjákonuna vitru sem nær frá jörðu til himins. Ég sit hjá henni og loka augunum, anda með trénu, alla leið djúpt ofan í jörðu með rótunum hennar og hátt upp til himins með greinum hennar. Hugur minn róast og ég finn að ryþminn í trénu, himninum, jörðinni og mér er hinn sami. Það er ákveðinn hljóður taktur sem fyllir mig friði. Eftir nokkra stund í sátt við Lífið og umhverfið í einingu og ryþma hamingjunnar veiti ég hjarta mínu athygli. Þar er að myndast svar, fyrst óljóst en síðan smátt og smátt skýrar og loks ákveðið: "Hrafnarnir hafa báðir rétt fyrir sér, þeir eru bara ekki að tala um sama tíma. Fyrst þarf ég að staldra við, tíminn er ekki alveg kominn fyrir drauminn minn. Það þarf aðeins meiri undirbúning og jarðvegsvinnu. En áður en langt um líður verður rétti tíminn til að sleppa sér yfir áhyggjurnar og ljónið í veginum og... bara stökkva!"
Eða eins og Magni litli kisustrákur segir þegar hann horfir hugsi til sólar:
"Stundum er lífið fullkomið eins og það er.....
... og engin þörf á að stökkva eitt eða neitt. Við bara njótum dagsins í dag, slökum á og leikum okkur. Þegar tími kemur til annars, þá... já, þá bara stökkvum við."
Og hann Magni litli Víkingakisi veit sko hvað hann syngur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.4.2008 | 23:17
Gamlir dagar og nýjir
Eftir erfiðan vetur, í skrokknum mínum, hef ég átt dásamlega hressar vikur undanfarið. Svo allt í einu hrinur allt aftur. Það er rok og rokið nær inn í og gegnum þennan undarlega samansetta líkama sem ég bý í. Eins og þessi mannslíkami er dásamlegur og getur boðið upp á svo margt. Maður getur fundið sólskinið á húðinni, gengið á fjöll, notið þess að horfa á fegurð lífsins með augunum, finna ilm af vorinu, klappa dýrunum sínum, snerta og tala við börnin sín og njóta þess að borða súkkulaði.... En þessi sami líkami bíður líka uppá annarskonar upplifun, verki, óþægindi, máttleysi, óstjórn, vonleysi,.... liggja í sófanum.
Það er rok í kvöld, bæði ytra og innra. En það eru alltaf tvær hliðar á lífinu. Rok gerir líka hreint, það feykir burt gömlum hugsunum, gömlum verkjum og gömlum tímum. Um leið og rokið er farið, kemur logn með pláss fyrir nýja tíma ... já og kannski nýja verki, en þeir eru þá allavega nýrri en hinir
Nú er tími til kominn að leggja sig til morguns. Á morgun kemur nýr dagur, einum degi nær vorinu. Fyrir svefninn ætla ég að minna mig á hvað kalt rok og dimmt, getur verið fallegt á litinn. S.l. haust, byrjaði ég að sauma mynd af haustinu í Hellisgerði. Hún er hér, saumuð en óstrekkt og ekki alveg í fókus en kannski alveg nóg í bili
Það er gott að minna sig á að það er gaman á öllum árstímum, líka öllum "árstímum" innra með manni. Og þó það sé ekki alltaf bara gaman, þá er alltaf einhvern lærdóm að finna til að nýta seinna.
Góða nótt, sjáumst á nýjum degi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)