7.9.2008 | 13:08
Lífið er fagurt en á sína skugga
Já, það er ekki um að villast, haustið er komið. Nýjir vindar blása, árstíðaskiptin bjóða upp á nýja daga og dimmari kvöld, öðruvísi daga, jafnvel litfegurri daga líka. Sum trén eru farin að sýna skærgula og fagurrauða liti inn á milli grænu blaðanna. En enn blómstra rósir og þykjast ekkert vita hvað er í gangi hjá sólu og jörðu Hjá rósunum mínum er bara sól og sumar, mér líst vel á þær að ætla að gefa okkur ilm og fegurð áfram inn í haustið
Það gengur allt vel með Lárus, hægt og jafnt upp á við. Aðeins lengri göngur á hverjum degi og við getum fylgst með árstíðaskiptunum í Hellisgerði á göngunum okkar. Lyfjakúrinn búinn, engar hjúkkur heim lengur og leggurinn tekinn. Allt í réttum gír, kraftaverkið heldur áfram
En það er einn skuggi sem kom yfir okkur skyndilega og þó áttum við von á honum. Hann Punktur, 9 ára gamli hundurinn okkar, sonur Pollýönnu sem fór á nýjar himneskar lendur síðastliðið vor, varð veikur. Hann hefur verið með æxli sem erfitt var að eiga við og varð skyndilega mikið veikur eitt kvöldið. Ég talaði við dýralækni og það var ekkert um nema eitt að velja. Þannig að þessi ólátabelgur okkar er farinn til mömmu sinnar. Þar getur hann gelt og hlaupið óhindrað, sungið afmælissöngva og dansað og knúsað af hjartans list. Okkar afmælissöngvar verða aldrei samir eftir því hann Punktur tók alltaf undir og söng hæst af öllum. Þannig að ef þið heyrið í englakór og ein röddin er .... við skulum segja ekki alveg í samræmi við hinar, þá er það sennilega Punkturinn okkar. Hans er sárt saknað en við vitum að nú líður honum loksins vel aftur með mömmu sinni sem kom og tók á móti honum. Þakka þér fyrir öll þín litríku ár með okkur Punktur minn.
Dúfa er að átta sig á nýjum aðstæðum. Nú er hún ein um að vakta húsið og það er mikil ábyrgð fyrir aðeins eins árs gamlan hund. Við erum nú að reyna að segja henni að anda rólega og leyfa okkur og köttunum að bera þessa ábyrgð með henni.... við sjáum til hvort hún fer ekki að trúa okkur fljótlega Annars er hún Dúfa alveg dásamlegur hundur. Eins og mér fannst hún stundum erfið síðastliðinn vetur þá hefur hún lært og þroskast og við líka. Hún liggur við tærnar á pabba sín núna eins og hún hefur gert síðan hann kom heim af spítalanum og áður en hann fór þangað, og gætir hans vel Hún Dúfa hafði örugglega gert sér grein fyrir alvarleika veikindanna strax í byrjun á meðan við hin vorum alveg græn og héldum að hann væri bara með einhverja "pest". Svona er það, maður á að hlusta betur á dýrin Magni litli víkingakisi (eða Vagni, eins og Embla Sól kallar hann ) hlustar vel á Dúfu sína og hjálpar henni að passa heimilið.
Fegurð Lífsins á sér engin takmörk, einu takmörkin er okkar sjón og skilningur
Athugasemdir
Yndisleg og ljóðræn færsla Ragnhildur mín, eins og þín er von og vísa. Mikið er gott að heyra að allt gengur vel með manninn þinn hann Lárus. Allt á réttri leið. Leitt að heyra með Punkt, ég ætla að hlusta vel eftir þessari einu rödd, ef ég heyri englakór Og mikið skil ég blessaða ´Dúfuna að það er mikil ábyrgð á litlum hundi að bera alla þessa ábyrgð Hún hlýtur að leyfa ykkur hinum að bera smá með sér. Takk annars fyrir þessa fallegu færslu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.9.2008 kl. 13:36
Falleg og kærleiksrík færsla...
Litbrigði lífsins eru óteljandi...en til þess að geta séð ljósið og fegurð þess verðum við að sætta okkur við að skuggarnir eru nauðsynlegir og órjúfanlegur partur af heildarmyndinni...
Punktur og Pollýanna munu örugglega leggja Dúfu lið við að gæta hússins og ykkar íbúanna...þó frá annarri vídd sé...ekki spurning...
Held áfram að biðja fyrir ykkur og vona að allt verði í himnalagi...
Bergljót Hreinsdóttir, 7.9.2008 kl. 20:59
Gott að heyra að það gengur vel með Lalla. Hvert lítið skref er skref í rétta átt. En leiðinlegt að heyra með hann Punkt. Ég samhryggist ykkur með það. Það er greinilegt að Dúfa tekur sitt hlutverk alvarlega en hún fær örugglega aðstoð við að gæta ykkar.
Takk fyrir fallega færslu og takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með.
Sigrún Þorbjörnsdóttir, 7.9.2008 kl. 21:17
Takk fyrir fallega færslu. Ég var einmitt í dag að dást að fallegu haustlitunum á trjám og runnum. Leitt með hann Punkt. Ég þurfti einu sinni að fara þessu sömu leið með hana Lillu okkar (kisa) en hún fékk "brjóstakrabbamein" og var ekkert annað að gera í stöðunni. Gott að það gengur vel hjá karlinum þínum.
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar, 8.9.2008 kl. 17:29
Það er gott að lesa að Lárus er að ná sér hægt og bítandi þetta tekur sinn tíma.
En leitt með Punkt,en hann er kominn á góðan stað og líður betur núna.
Sérstök kveðja til ykkar. Kveðja María
María Anna P Kristjánsdóttir, 8.9.2008 kl. 17:51
Gott að lesa að Lárus þinn hressist, þetta tekur sinn tíma víst.
Gangi ykkur sem allra best.
Ragga (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 19:40
Þetta er mjög falleg og einlæg færsla hjá þér Ragnhildur eins og þér einni er lagið.
Leitt að heyra með hann Punkt. Ég samhryggist ykkur öllum alveg innilega. Það er ekki auðvelt að missa dýrin sín svona.
Yndislegt að heyra að vel gangi með Lalla. Það er mikil blessun.
Kveðja, Guðni
gudni.is, 8.9.2008 kl. 21:52
Takk fyrir fallega færslu og yndislegar myndir. Já, ég trúi því að Dúfu finnist þetta mikil ábyrgð, enda er hún svo ung. Frænka mín á lítinn hvolp og hún sagði mér að hundar væru taldir hvolpar til tveggja ára aldurs.
Gott að heyra að bóndinn er að ná ser og það er satt að hundar finna mjög oft á sér ef fólk er veikt. löngu áður en læknar greina nokkur veikindi.
Innilegar samúðarkveðjur vegna Punkts, en hann er örugglega heilbrigður þar sem hann er núna og hamingjusamur með mömmu sinni og hinum englunum.
Svava frá Strandbergi , 9.9.2008 kl. 01:06
Elsku Ragga mín! Það er aldeilis verið að reyna á ykkur núna. Mikið ofboðslega dáist ég af dugnaði ykkar í erfiðum aðstæðum.
Það er eitt að verða fyrir svona áfalli eins og maðurinn þinn varð fyrir, svo bætist ofan á það fráfall mikils vinar. Mér verður bara illt í hjartanu.
Sendi þér ljós og kærleik á erfiðri stundu. Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur elsku Ragga.
Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 11:47
Þakka ykkur öllum innilega fyrir, þið eruð öll svo mikil hjartagull Það er svo gott að lesa fallegu kommentin ykkar.
Punkturinn okkar sem syngur með englakórnum núna, fékk fallega rós í garðinn við hlið mömmu sinnar og hennar fallegu rós. Við finnum fyrir þeim báðum með okkur hérna á heimilinu að gefa pabbanum knús og aðstoða Dúfu í hennar hlutverki.
Lárus hressist dag frá degi, 10 mínútna göngur verða 12 mínútur og svo 15. Allt á réttri leið. Haustið gefur fleiri liti og trén dansa í vindinum. Lífið er bara gott. Við verðum að taka skuggunum með, þeir fylgja ljósinu. Málið er að einblína ekki á skuggann heldur kveikja fleiri ljós.
Knús, kveðjur og kærleikur til ykkar allra yndislegu bloggvinir mínir
Ragnhildur Jónsdóttir, 9.9.2008 kl. 12:10
Sæl Ragnhildur. Ég ætla bara að spyrja hvort þú viljir gera mér þann heiður að kíkja á opnunina á sýningunni mínni í Gerðubergi föstudaginn 12. sept. kl. 4
Kær kveðja
Guðný Svava
Svava frá Strandbergi , 10.9.2008 kl. 12:41
Sæl og blessuð Guðný Svava, það veltur allt á stöðunni með eiginmanninn hvort ég kemst en við stefnum á að mæta Þakka þér kærlega fyrir boðið.
Ragnhildur Jónsdóttir, 10.9.2008 kl. 13:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.