17.4.2008 | 11:56
Myrkrið og Ljósið
Vindurinn gnauðar, liðirnir æpa og vöðvarnir stífna og linast í máttleysi til skiptis. Vorið sem var, er farið, hvenær kemur það aftur, kemur það ekki örugglega aftur? Það varð allt svo dimmt og kalt og þreytt, allt í einu.
Í myrkrinu tók ég eftir hulunni sem aðskilur myrkur og ljós. Það lýsti dauflega í gegn, eins og örlítil von. Ég teygði mig fram og dró huluna frá og þar fyrir utan .... er Ljós.
Augu hjartans sjá í Ljósinu fagran dans trjánna hinum megin götunnar. Hinir nýkomnu mávar láta sig svífa á uppstreymi, fljóta áfram eins lauf á ánni. Þeir brosa og teygja úr vængjunum, fljúga aftur kringum háu grenitrén.
Ætli þeir séu að segja fréttir frá suðurlöndum? Kannski finnst trjánum sem eru hér föst og staðbundin, gaman að heyra af ævintýrum frá fjarlægum slóðum.
Ég get ekki betur séð en að trén dansi enn hraðar og jafnvel með kómískum sveigjum og glettni. Þetta hefur verið skemmtileg saga hjá mávunum.
Það er bjart og allt er baðað fögru hlýju brosandi Ljósi.
Athugasemdir
Ég fauk inn í hús rétt í þessu, heyrði það í útvarpinu að vindinn eigi að lægja með kvöldinu og ég er að vona að þar með komi vorið.
Ragga (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 13:00
Aaaaahhhh takk nafna mín, mikið eru þetta góðar fréttir
Ragnhildur Jónsdóttir, 17.4.2008 kl. 13:03
Hvernig skildi mávunum lítast á byggingarnar á höfninni?? ekki líst mér vel á þær. FInnst eins og sturtað hafi verið heilu hlössunum af risagrjóti á bakkann sem eitt sinn var svo skemmtilegur til gönguferða og annarra hluta. Fallegar myndir hjá þér.
Ásdís Sigurðardóttir, 17.4.2008 kl. 15:46
Ég get sagt þér það Ásdís að mávarnir og ég erum alveg sammála um það að þarna hefði átt að byggja Listaháskóla. En það þýðir ekki að tuða yfir því sem orðið er, ... þó ég urri nú samt yfir þessu reglulega Ég bara skil ekki áherslurnar í þessum bæ lengur.... en best að fara ekki nánar út í það .... Þetta er yndislegi bærinn minn, ... svona innst við beinið, allavega Hellisgerði
Ragnhildur Jónsdóttir, 17.4.2008 kl. 23:40
Að lesa skrifin þín er eins og að lesa í vel skrifaðri bók, kannski ættir þú að fara að leggja það fyrir þig, ef að þú hefur ekki þegar gert það.
Linda litla, 17.4.2008 kl. 23:50
Þú ert flott Ragnhildur mín, en hér er logn og blíða ennþá. Góða nótt á þig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.4.2008 kl. 00:21
Æ, Linda takk og knús ... ég er að skrifa bók eða er eiginlega með nokkrar í takinu en það er ekki þar með sagt að þær verði einhvern tíma efnar út sko ...
Ásthildur takk Veistu Ásthildur, ég held þú hafir bara sent smá veðurblíðu hingað suður, takk fyrir það
Ragnhildur Jónsdóttir, 18.4.2008 kl. 13:56
Mín er ánægjan Ragnhildur mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.4.2008 kl. 11:51
Hérna í eyjum hefur verið alveg yndislegt veður undanfarna daga með sól og blíðu. Börnin eru komin út að leika og allt iðar af lífi. Farfuglarnir mættir (sumir hverjir) og svei mér þá, það var fluga mætt í heimsókn til mín í gær, en henni var hjálpað út um gluggann aftur. Lífið er yndislegt.
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar, 19.4.2008 kl. 13:24
Maður kemst alltaf í svona draumkenndan trans þegar maður les bloggið þitt. Ofsalega notaleg færsla hjá þér þó svo hún lýsi kulda og vindi. Svona á að skrifa! Bestu kveðjur til þín
Arna
Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 18:48
Þakka þér fyrir Arna, voða var þetta notalegt.
Knús og takk og bestu kveðjur austur fyrir fjall
Ragnhildur Jónsdóttir, 21.4.2008 kl. 10:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.