Flensan við völd ;-)

Allt í flensu á heimilinu, á meðan er nú ekki mikil starfsorka hjá þeim en þeim mun meiri pælingar og framtíðardraumar hjá mér ... Aldrei þessu vant er ég sú eina hressa á bænum Cool datt í hug að setja inn flensufærslu frá því í haust.

Ég fann að umgangspestin var að ná tökum á mér. Að víkingasið reyndi ég að berjast á móti með því að þykjast ekki taka eftir einkennunum.

En loks varð ég að gefast upp og ákvað að leyfa þessu veseni að hafa sinn gang. Ég skreið þess vegna framúr rúminu í náttfötunum, sveittum og krumpuðum eftir erfiða nótt. Rauð- og hvítköflóttu alltof stóru flannelsbuxurnar með hjörtunum, stjörnunum og blómunum límdust sveittar við fótleggina. Ljósblái satín náttjakkinn var skakkt hnepptur og vantaði tölu. Ég fann að mér var eitthvað kalt og greip alltof stóra ullarsokka af bóndanum og fór í þá. Þeir náðu langt út fyrir tærnar. Utanyfir allt saman fór ég svo í fjólubláa jakkapeysu með hettu og rennilás. Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að ég var þrútin í framan af bjúg eftir svefnlitla nótt og með rautt nef og rauð augu og röddin rám eins og eftir þriggja vikna fyllerí. Í orðsins fyllstu merkingu leit ég út eins og illa teiknaður Goofy en ég var algjörlega ómeðvituð um það.

Ég rétt skrölti fram í stofu, slöpp og átti erfitt með að hreyfa fæturna. Eitthvað voru ekki allar deildir í heilanum vaknaðar eða ég var svona rooosalega undirlögð af flensu og hálsbólgu og hita.... Utan úr garði heyrði ég ámátlegt væl og sá hvar litli kisustrákurinn minn var um það bil að lenda í slag við fressinn í næsta húsi. Æ, greyið mitt litla, ég verð að fara og bjarga honum! Ég stökk upp og hljóp úr innri stofunni í þá fremri, hundarnir sáu að þetta var eitthvað alvarlegt og að þeir yrðu að hjálpa mér í björgunarstarfinu, svo þeir hlupu báðir á eftir mér og hvöttu mig áfram geltandi. Ég hljóp áfram fram allan ganginn með geltandi hundana á hælunum og flókið hárið í allar áttir. Ég greip í hurðarkarminn á forstofunni og skransaði fyrir horn með hundana hálffljúgandi við sitthvora hliðina á mér, nú alvarlega geltandi og hoppandi, við rétt náðum beygjunni og ég reif upp útidyrnar, hundarnir hlupu báðir út að bjarga kettinum en  ...........   fyrir utan dyrnar, alveg við nefið á mér,........ stóð maður.   Hann rétti Moggann að mér og sagði: "Varstu að bíða eftir mér?"  "eh, ja" sagði ég en fór svo eitthvað að röfla um kött og væl og að bjarga sko  ....

Það var ekki fyrr en maðurinn hafði labbað í burtu glottandi út í annað..... að ég leit í spegil......! Blush    Ég lá með sængina yfir hausnum þegar kattaróbermið lenti í slag við sama fress seinna um daginn!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingunn Jóna Gísladóttir

Ragga mín, batakveðjur til fjölskyldunnar, gott að þú hefur sloppið í þetta sinn. Sem betur fer hefur ölla fjölskyldan hjá mér alveg sloppið við flensupestir í vetur. Eigðu yndislega helgi, kær kveðja Ingunn

Ingunn Jóna Gísladóttir, 23.2.2008 kl. 11:32

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Samúðar- og batakveðjur!

Greta Björg Úlfsdóttir, 23.2.2008 kl. 11:49

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innilegar batakveðjur á fjölskylduna, góður flensupistillinn. Þú hefur fengið það í konudagsgjöf að sleppa við flensuna, heppin.  Eigðu ljúfa helgi Flowers For You

Ásdís Sigurðardóttir, 23.2.2008 kl. 15:51

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahah sé þetta fyrir mér Ragnhildur mín. En láttu þér batna sem fyrst.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2008 kl. 14:55

5 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Þakka ykkur fyrir góða kveðjur Ingunn, Greta og Ásdís. Það eru allir að hressast núna. Bestu kveðjur til ykkar og til hamingju með daginn

Ragnhildur Jónsdóttir, 24.2.2008 kl. 14:55

6 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Já Ásthildur mín, maður verður að hafa húmor fyrir "góðu mómentunum" í lífi sínu   Bestu kveðjur og til hamingju með konudaginn

Ragnhildur Jónsdóttir, 24.2.2008 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband