27.10.2007 | 15:07
Öryrkjar og eldri borgarar
Í allri þessari umræðu undanfarið um endurkröfu Tryggingastofnunar frá öryrkjum og eldri borgurum, hefur maður heyrt ótrúlegustu sögur. Það er svo algjörlega löngu tímabært að stokka upp allt þetta kerfi. Einfalda og lægfæra og nútímafæra kerfið. Ég hef nú trú á því að það sé verið að vinna að þessu en þetta má ekki taka of langan tíma. Og þeir sem eru að vinna að endurskipulagningunni þurfa að vita frá fyrstu hendi (frá lífeyrisþegum) hvað er að. Og vinna svo vonandi samkvæmt því að lægfæringum.
Ég set hér inn sögur sem mér voru sendar í kommenti við aðrar færslur hjá mér, sendandinn kallar sig Elísu. Það skiptir ekki máli hver manneskjan er og það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk vill nafnleynd. En saga hennar er svona:
"Ég fékk reikning upp á 750.000,- frá TR vegna eingreiðslu frá lífeyrissjóðnum mínum. Þar sem reiknað er út frá brúttótekjum, skulda ég stofnuninni mun meira en ég fékk í vasann frá lífeyrissjóðnum, sem fór nota bene beint inn á höfuðstól lánsins sem ég þurfti að taka meðan ég var ekki að fá reglulegar greiðslur.
Svona nokkuð getur bugað mann. Því meira sem ég reyni að vinna, því meira lendi ég í mínus hjá TR. Ég er föst.
Hvar er Jóhanna með loforðin sín? Hennar tími kom, hvað með okkar? "
Elísa"
Önnur sendi þessa inn á komment hjá mér:
"Ég á að endurgreiða kr. 294.927.- Fyrir er ég að greiða niður eingreiðslu sem ég fékk frá TR í upphafi, vegna þess að mér voru reiknaðar bætur aftur í tímann. Þessa eingreiðslu átti ég svo að endurgreiða þegar ljóst var hvað ég fengi úr lífeyrissjóðnum mínum. Eingreiðsluna hafði ég notað til að greiða upp lífeyrissjóðslán sem ég var með á bakinu en langaði til að losna við. Þannig að ég samdi við TR um að taka mánaðarlega af mér fyrir endurgreiðslu eingreiðslunnar. Svo bætast þá þessi tæp þrjúhundruð þúsund við "skuldina", að því er mér virðist. Annars er ekki vel gott að botna í þessum útreikningum TR. Ég veit það eitt að enginn er ofsæll af þeim bótum sem stofnunin greiðir, þó sumir virðist álíta það sem fara með málefni hennar. Gréta "
Hafið þið fleiri slíkar sögur að segja? Ég mun svo koma þeim áfram til þeirra sem vinna að okkar málum.
Munið svo að kvitta á UNDIRSKRIFTALISTANN það eru komnar 3319 undirskriftir!!! Jibbý!!! en betur má ef duga skal og við höldum áfram að minna alla á og hjálpa þeim að kvitta sem hafa ekki tölvu til umráða.
Góða helgi elskurnar
Ragga fjöryrki
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.