11.3.2009 | 15:26
Öfugu megin frammúr...?
Þær lágu saman og hvíldu sig, þvílíkt afslappaðar, Dúfan og Lafðin.
Ég horfði lengi á þær, þvílík slökun. Mig dauðlangaði bara að troða mér á milli þeirra.
En ákvað að setjast í eldhúsið og hita mér kaffi, reyna að vekja mig og hressa. Opnaði tölvuna og settist við eldhúsborðið á meðan kaffivélin mallaði. Maður verður að reyna að "gera eitthvað".
Einbeitingin var engin, aftur og aftur varð mér litið upp, þarna svaf Magni. Hverskonar bæli er þetta nú fyrir stóran kisa?!
Þetta er karfan hans Jóla! reyndar var þetta alltaf brauðkarfa en... tímarnir breytast og hlutverkin með.
Þessar pælingar mínar höfðu engin áhrif á Magna "litla" Víkingakisa.
Ég skil ekki alveg hvernig þetta er þægilegt en .... hann sefur og virðist líða bara mjög vel.
Ég hugsaði með mér að ég ætti kannski bara að leggja mig líka. Ég er alltof þreytt á öllum pælingunum, stóru draumunum sem eru alltof erfiðir hvort eð er. Ég get þetta ekkert, þetta er bara rugl, ég hef ekki það sem þarf í drauminn minn, skrokkurinn leiðinlegur, mig verkjar þarna og hérna og hausinn! ... ... æ, ég fer bara að sofa og vakna kannski bara þegar vorar í Lífinu.
Ég var eiginlega alveg búin að tala mig niður í gólf, niður í dimmasta vetur þegar ég hrökk upp...
...það er kallað í mig, hátt og ákveðið! Ég lít út um gluggann á húsið sem verkamannahjónin amma mín og afi byggðu með eigin höndum, einhvern tíma snemma á síðustu öld og fengu aðstoð föður míns sem þá var aðeins smápolli.
Uppi á þaki sat...
... krummi vinur minn. Það var greinilegt að honum lá mikið á hjarta að ná sambandi við mig.
Ég sá að það þýddi ekkert annað en að hlusta...
Hann sagði mér að hugtakið "vor" væri afstætt og hefði með innri ákvörðun að gera. Ef ég ætlaði að sitja niðurlút og bíða eftir vorinu, þá kæmi það aldrei. Nei, ég yrði að líta upp og finna "vorið" sjálf. Já, láta sjálf birta til innra með mér, finna Ljósið aftur, finna vonina, Lífið, birtuna og vorið og......
Magni gaf allt í einu frá sér ótrúlega undarlegt "Mjálmkvakvofftíst" og stökk upp í gluggann!
Hann horfði einbeittur, mjög einbeittur upp og "talaði og talaði" við einhvern...
... er hann orðinn ruglaður, hugsaði ég.
Þarna hékk hann á klónum og næstum dottinn út. Hva? ... þá sá ég hvað það var...
... hann hafði séð flugu. Og hann ætlaði sko ekki að láta fyrstu flugu vorsins sleppa.
Flugan flaug út um gluggann, slapp undan þessu undarlega "tali" kattarins. En kisi stökk á eftir henni og endasentist niður garðinn, stökkvandi og hoppandi. Greinilega mjög glaður.
Í því sé ég krumma fljúga burt og krunka eins og til að segja: "Ég sagði þér að vorið kæmi um leið og þú hugsaðir það."
Athugasemdir
Alveg hreint er ég sammála krumma. Við höfum svo mikið um það að segja sjálf, hvernig okkur líður. En það er ótrúlega gaman að lesa þetta, þú ert með svo skemmtilega listræna frásagnagáfu
Dýrin þín eru alveg brilliant. Ég sprakk bara úr hlátri yfir Magna í körfunni. Hann hefur náttla verið búinn að sjá hvað það fer vel um Jóla í þessari körfu, svo þá hlýtur hún að vera þægileg Og stellingin hennar Dúfu, mmm, ég hefði bara troðið mér á milli Knús þig elskuleg
Sigrún Þorbjörnsdóttir, 11.3.2009 kl. 17:36
Mikið var þetta nú skemmtilegt :-). Ég alveg lifði mig inn í frásögnina og já hann krummi er nú ekki ónýtur í leiðsögninni, það er gott að taka mark á honum og svo bara fyrsta flugan komin, alveg yndislegt þó að maður fái svo nóg af þeim. :-)
Knús Ragga mín ps. Hvað er eiginlega með þessa brauðkörfuhaha
Begga (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 17:51
Hjartans þakkir fyrir þessa litlu og fallegu sögu og fyrir að gefa okkur hlutdeild í því hvernig þú tekst á við dökka daga með því að sækja birtuna og húmorinn inn í lífið. Þannig sendir þú hlýja geisla til okkar hinna sem lesa bloggið þitt.
Elín kisuamma (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 22:00
Æ, þið eruð yndislegar allar þrjár. Knús og kveðjur til ykkar og takk fyrir að gefa bros í hjartað
Ragnhildur Jónsdóttir, 12.3.2009 kl. 22:11
Þetta er yndislega skemmtileg myndasaga. Takk fyrir að deila henni með okkur hinum.
Sveinbjörg Guðmarsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 18:16
Þakka þér fyrir svona hlý orð Sveinbjörg
Ragnhildur Jónsdóttir, 13.3.2009 kl. 20:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.