29.11.2007 | 12:43
Hversdagur öryrkjans
Ég sit hérna við eldhúsborðið með tölvuna mína. Fletti upp Tryggingastofnun á netinu og finn símanúmerið, eftir mikla leit, ekki er nú heimasíðan neitt einfaldari en annað hjá þeim blessuðum. Að vísu eru sumir dagar þannig að allt virðist flókið fyrir manni og dagurinn í dag er sannarlega þannig.
Ég þarf að hringja og fá útskýringar á bréfi sem ég fékk í gær. Þar stendur: "Efni: Innheimta ofgreiddra bóta." og svo: "Fyrir liggur skuld þín við Tryggingastofnun að fjárhæð 209.141,- kr. vegna ofgreiddra bóta lífeyristrygginga. "..... WHAT!?!
Í október s.l. fékk ég bréf þar sem stendur: "Efni: Endurreikningur og uppgjör bótagreiðslna ársins 2006" og neðar: "...bætur ársins eru ofgreiddar sem nemur 43.975,-" þá hugsaði ég: ok, læt það vera, maðurinn minn borgar þetta bara einhvern veginn (ekki get ég það af ca 75.000,- greiðslu á mánuði). En hvað svo með bréfið sem kom í gær?
Ég hringi í TR og þar er sagt að símtöl séu hljóðrituð! ég ákvað að hringja ekki og grenja inn á einhverja upptöku sem ég veit ekkert hver hlustar á. Svo það verður að bíða, annað hvort sendi ég mail sem ég veit þá ekkert hvernig eða hvenær verður svarað eða hin venjulega lending: maðurinn minn hringir fyrir mig, hann er með sterkara taugakerfi. (Til allrar Guðslukku!)
Í gærkvöldi á meðan ég var að reyna að átta mig á þessu bréfi með 200.000 króna rukkuninni, þá fór ég á mbl.is og rakst á fréttina um "Vilhjálm orðheppna" og svo mörg blogg og komment hér og þar sem særðu mig djúpt. Við öryrkjar alltaf að svíkja fé út úr TR! yeah right!
Nú sit ég hér og græt eigin aumingjaskap. Hvað gerir fólk sem hefur ekki svona "Lalla" til að hringja fyrir sig eða borga og redda hlutunum? Ég bara spyr.
Einmitt þegar mér líður sem verst, verður mér litið út um gluggann þar sem er stórt Reynitré. Þar situr þröstur á grein og horfir beint á mig eins og til að segja mér eitthvað. Ég reyni að hlusta en er eitthvað sambandslaus en verð þá vör við meiri hreyfingu .... þetta stóra tré er fullt af þröstum!! Þeir sitja allir og horfa á mig! en þeir horfa blíðlega og notalega eins og englar sem senda sinn fallega kraft og kærleika. Þvílík fegurð og kærleikur sem fylgir þeim! Í því tek ég eftir hrotum sem koma undan borðinu: þrír hundar liggja þar og verma á mér tærnar. Ég hugsa með mér að ég sé óendanlega rík að eiga svona góða vini.
Skítt með þetta peningavesen og Tryggingastofnun, já, ég segi bara upp! Hætti að "vinna" hjá TR, er það ekki hægt?!
Athugasemdir
Þetta eru bara týpísk vinnubrögð hjá TR, svo getur hvort eð er enignn þarna niður frá svarað neinu, því enginn veit hvað þeir eru að gera. Ef þú ætlar að hafa samband við þá talaðu þá við einn sem heitir Arnór Pétursson, hann er alveg frábær og er mjög klár. Ég er eins og þú núna, dagurinn í gær byrjaði svo vel og svo bilaðist ég þegar ég las skrifin hans Vilhjálms Þannig að ég er að hugsa um að fara að dúllast í myndunum mínum og hætta að pirrast á þessum bjánum. Þú ert alveg mold rík með alla fjórfættu ungana þína og listina sem hjálpar manni við að halda geðheilsunni. Kveðja Ingunn Fjöryrki
Ingunn Jóna Gísladóttir, 29.11.2007 kl. 12:56
GOTT HJÁ ÞÉR. það eru nefnilega margir,eða og margar sem gráta yfir svona AFTÖKUM, ÞVÍ ÞETTA ER EKKERT ANNAÐ EN AFTAKA. þAÐ KEMUR AÐ LÍFEYRISSJÓÐNUM NÚNA SEM VERÐUR VONANDI EKKI JÓLAGJÖFIN ÞÍN. Ég er sjálfur öryrki og bý einn og þetta er rosalegt dæmi fyrir marga að komast af. Ég ætla bara að vona að líferyissjóðurinn skerðist ekki hjá mér,þá segi ég. NÚ ER KOMIÐ NÓG.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 13:40
Ég fékk líka svona bréf, nema mín skuld er tæpar 300.000, ég er ekki alveg að skilja þetta bréf.
Linda litla, 29.11.2007 kl. 15:20
Sæl öll sömul og hjartans þakkir fyrir innlitið. Það er með ykkur sem skrifið athugasemdir eins og með þrestina sem syngja fyrir utan gluggann; það gleður mig óendanlega að sjá ykkur
Ég bara skil ekki baun hvað TR er að meina en það er svosem ekkert nýtt. Verra er að geta ekki borgað þetta sem maður skuldar,... eða skulda ég þetta? é-bara-skilur-ekki-baun
Nú er upplagt að hlusta áfram á jólalögin og hita sér súkkulaði með. Sauma soldið jóló og hlusta á rokið í trjánum úti. Hvar ætli þrestirnir haldi sig í rokinu...? Ætti ég að hlaupa út og bjóða þeim inn á meðan lægðin gengur yfir? eeeehhh, nei það er kannski ekki skynsamlegt, svona miðað við kattafjöldann inni
Ragnhildur Jónsdóttir, 29.11.2007 kl. 16:17
Ég skulda TR, samkvæmt bréfinu sem ég fékk, kr. 324.147, vegna ofgreiddra bóta lífeyristrygginga. Ekki veit ég hvernig þeir fundu þá tölu út, fyrir því fæ ég enga greinargerð. Ekki það að ég myndi kannski botna mikið í henni, en ég gæti þá alla vega fengið einhvern "fjárglöggan" til þess fyrir mig. Sem betur fer fæ ég greiðslur úr lífeyrissjóðnum mínum og það hefur hingað til ekki verið kroppað neitt í þær greiðslur, nema náttúrlega að ríkisapparatið lækkaði sínar greiðslur í takt við það og krafðist aukinheldur endurgreiðslu á áður greiddu.
Hringdi reyndar í TR og átti hljóðritað samtal við fulltrúa þar, eftir langa bið í símanum, þar sem ég fékk sem betur fer að hlusta á hina yndislegu Ellý Vilhjálms. Þessi fulltrúakona var hin ljúfasta og og var fljót að leysa úr erindi mínu, sem var að ganga frá skiptingu greiðslna. Segi eins og Ragnhildur að ég stend ekki undir því að vesenast út af þessu (og hef engan Lalla til þess), svo ég borga bara og ét svo hafragraut - eða þannig, sjá athugsemd neðar - set von mína á að Jóhönnu takist að breyta þessu kerfi til batnaðar.
Ég græt ekki lengur yfir svona bréfum, heldur hugsa ég að ég reyni frekar að finna út aðferð til að gera eins og blómin og lifa af ljóstillífun - er einhver hér sem kannast við slíka aðferð ? Hef heyrt um einhverja jóga í Himalaya sem gera það en þekki þá því miður ekki.
En maður á sem betur fer, eins og Ragnhildur bendir á, svo ótal margt í lífinu til að vera þakklátur fyrir, þó fjárhagurinn sé ekki glæsilegur.
Greta Björg Úlfsdóttir, 29.11.2007 kl. 18:17
Greta, kannski væri ráð að sækja um styrk til ríkisins um að panta einn slíkan jóga frá Himalaya svo að öryrkjar landsins gætu lært ljóstillífunaraðferðina. Það myndi spara heilmikla peninga fyrir ríkið til lengri tíma
En er þetta ekki undarlegt, þetta apparat? Ég var að velta því fyrir mér: hvað ætli séu margir starfsmenn hjá TR að reikna út hvað við eigum að endurgreiða á hverju ári? Hvað ætli þeir fái í laun fyrir það? og svo eru sendir út allir þessir "útskýringaseðlar" sem enginn skilur. það myndi sparast hellingur að senda það fólk bara heim, það er næg önnur vinna fyrir það starfsfólk að reikna út eitthvað annað einhversstaðar annarsstaðar.
Hún Jóhanna hetjan okkar er að vinna að þessu. Það er eins gott að hún fái vinnufrið og að við sendum henni stöðugt góðar og styrkjandi hugsanir að vinna með.
Ragnhildur Jónsdóttir, 29.11.2007 kl. 19:23
Nú er ég alveg mát! Hvað gengur þessari stofnun til eignlega? Ég fékk ekki svona bréf, eða hef ekki enn fengið a.m.k. Við vorum með svo pínulitlar tekjur að þær voru bara sýnishornatekjur. En elsku Ragga mín, ég faðma þig í huganum og vona að tárin þín þorni. Þetta er ömurlegt og ég get rétt ímyndað mér áfallið við þessar bréfasendingar.
Ég man þegar ég var í sveitinni í gamla daga og mér leið illa, þá tók ég göngutúr með honum Smala mínum (hundur) og sagði honum frá öllu því sem mér lá á hjarta. Hann virtist alltaf hlusta af athygli og ég gaf honum góðar strokur að launum. Þú ert svo heppin að hafa svona dásamlegar verur hjá þér. Ég efast ekki um að þú talir við þau og þau hlusti. Svo er svo frábært að þessar elskur kjafta aldrei frá, en sýna ótrúlega hluttekningu.
Ég sendi faðmlög, kærleik og ljós til þín elsku yfir dúllan mín!
Kveðja, Arna fjöryrki
Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 20:40
Elsku Arna, knús og takk Já þessir litlu loðnu vinir eru svo sannarlega betri en enginn og einmitt, þau kjafta aldrei frá. Og sama sagan með þessa vængjuðu, bæði fuglana og englana
Ég hugsa oft um alla hina öryrkjana og eldri borgarana sem hafa kannski engan til að hjálpa sér. Við reddum þessu hérna hjá okkur en það búa ekki allir svo vel. Við verðum að halda baráttunni áfram og getum ekki slakað á.
Hjartas þakkir fyrir hlýjuna og kærleikann Arna mín.
Nú höldum við baráttunni áfram
bestu kveðjur
Ragga fjöryrki
Ragnhildur Jónsdóttir, 29.11.2007 kl. 21:30
Það er ekki nokkur spurning, við slökum hvergi á í baráttunni Það eru allt of margir sem eru aleinir og hjálparvana.
Arna fjöryrki
Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 21:37
Kæra Ragnhildur! Hvað í ósköpunum gætir þú skuldað þeim, ef einhver skuldar einhverjum þá er það frekar TR sem skuldar fólki um allt land. OHhh ég verð svo reið og búin að heyra af mörgum í dag í sjokki yfir þessu. Tímasetninginn líka frábær, allir að hafa áhyggjur af jólunum og skella þessu ofan á allt........
Gangi þér vel og takk fyrir heimboðið - aldrei að vita hvort maður kíki við
Jóhanna J (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 21:55
Æ, þið eruð öll svo yndisleg! Takk og knús á ykkur öll
Jóhanna, það skilur enginn þessa Tryggingastofnun....
Jóhanna þegar þú ert til sendu mér þá mail, það er undir upplýsingum um höfund hérna fyrir ofan og ég sendi þér símanúmerið mitt. Nú eða bara finna mig í símaskránni ;-) Svo bara komið þið og kíkið á litla liðið mitt Kettlingarnir ættu að fá sjón svona um miðja næstu viku, svo fara þeir að hreyfa sig meira og verða skemmtilegir svona undir jól og náttúrulega algjörir stuðboltar í janúar. Bara hvenær sem er Jóhanna, það verður bara æðislegt að sjá þig.
Ragnhildur Jónsdóttir, 30.11.2007 kl. 13:35
Sæl, Ragga, ákvað að lesa bloggið þitt, af því tilefni að ég hitti þig í dag :)
Þið eruð öll frekar neikvæð gagnvart TR. Þið vitið það að TR setur ekki lög eða býr til reglugerðir heldur framfylgir þeim bara. Er framkvæmdin eða þjónustan léleg eða bæði? og hvernig þá.
Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 00:30
Hæ Bobbi, gaman að hitta á ykkur í dag. Með TR, þá er það bæði framkvæmdin og þjónustan sem er lélegt. Sennilega er þjónustan yfirleitt léleg af þeirri ástæðu að starfsfólkið sem svarar, veit ekki einu sinni, í raun hvað það er að gera. Hver skilur þetta flókna kerfi? Ef þú lest bæði hjá mér og hinum "fjöryrkjunum" og leitar uppi sögurnar sem fólk er að lenda í, þá sérðu að þetta flókna kerfi býr til ótrúlegustu fáránlegheit.
En, við nokkrir öryrkjar sem köllum okkur fjöryrkja, af því við erum svo jákvæð, söfnuðum undirskriftum og fórum með til Jóhönnu Sigurðardóttur. Við töluðum við hana og aðstoðarmann hennar, vegna þess að við vitum að aðeins hún getur fengið þessu breytt. Þetta er allt í nefnd og verður vonandi fengin jákvæð lausn áður en fleiri öryrkjar gefast upp....
Að fá 44.000,- rukkun í október var nógu slæmt, en ok maður reddar því upp á íslenskan máta. En að fá svo allt í einu 209.000,- króna rukkun rétt þegar aðventan er að byrja, aðeins rúmum mánuði eftir hina rukkunina... Bobbi, hver skilur það? ég hef alls enga hugmynd um af hverju ég á að skulda 200.000,- og er það viðbót við hina skuldina eða er hún innifalin? það er engin útskýring á blaðinu sem ég fékk. Þannig að í ár verða heimagerðar jólagjafir gerðar úr afgöngum.....
Ég átta mig á því að ég stend betur en margir aðrir, þó það hafi oft verið ansi svart hjá okkur og eingöngu af því ég á góða að, þá hefur okkur verið bjargað fyrir horn. En einmitt af því að ég get, ber mér að berjast fyrir hina sem liggja heima og bara veslast upp í rólegheitunum af því þeir geta ekki staðið í þessu basli.
Við leggjum allt okkar traust á Jóhönnu, því ef hún ekki bjargar okkar málum með TR, þá er enginn sem getur það.
Bestu kveðjur Bobbi minn, vona að þetta segi þér eitthvað um þetta mál. Annars bara endilega kíkja í kaffi, ég er sko til í að ræða þetta betur. Finnst þér eitthvað skrítið að við séum neikvæð gagnvart TR???????
Ragnhildur Jónsdóttir, 3.12.2007 kl. 09:55
sæl, Ragga, ég geri ekki ráð fyrir að ég vilji blanda mér beint í þessar umræður.
Ég þykist samt vita að helsta ástæðan fyrir kröfu TR, séu áætlaðar tekjur, það er undantekningalítið ástæðan fyrir ofgreiðslum. þar sem hámarksskuldajöfnun greiðslna uppí kröfur eru að hámarki, með fullt af undantekningum 20% af greiðslum, næst oft ekki uppí kröfur sem eru tilkomnar vegna fyrri uppgjöra. Uppgjör samkvæmt skattframtölum eru framkvæmd á þessum tíma til að uppfylla lagaákvæði þar að lútandi. Það er ekki byrjað að innheimta kröfur vegna uppgjöra fyrr en í byrjun nýs árs. Til að koma í veg fyrir slíkar kröfur er best að fylgjast vel með aukatekjum og breytingum á tekjum og skila nýrri tekjuáætlun til TR ef svo ber undir.
Það er almennt viðurkennt að lögin eru arfaflókin og vonandi tekst félagsmálaráðherra að einfalda lög og framkvæmd þeirra. En það ber að hafa í huga að öll flækjan eins og hún leggur sig, er tilkomin og hefur byggst upp vegna þess að verið er að reyna að gæta hagsmuna einstakra hópa innan heildarinnar.
Það er óljóst hvort hægt er að vinda ofanaf kerfinu án þess að hópar af fólki verði fyrir skerðingu. Tekjutengingin er það sem fær mestu krítíkina. Tekjutengingin er tilkomin vegna jafnræðissjónarmiða, er flóknasti hluturinn af kerfinu og sá erfiðasti í framkvæmd og erfiðast að skilja en erfitt er að finna rök fyrir afnámi hennar, það er aftur á móti auðvelt að rökstyðja með góðu móti aukna tekjutengingu.
jæja, best að fara að elda kvöldmat.... :)
Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 19:18
Takk Jósep fyrir tilraun til útskýringa. Já, auðvitað er TR upphaflega og margbreytt til að reyna að hafa jafnræði og til góða fyrir fólkið sem á þarf að halda. En þetta kerfi er svo margplástrað að það virkar ekki lengur sem sanngjarnt. Fyrir utan hvað allar upphæðir hafa dregist aftur úr annari launa- og kostnaðarþróun. Tekjutenging við maka er algjörlega fáránleg og ætti ekki að vera til. En það er hins vegar sanngjarnt að öryrki sjálfur hafi ekki fullar bætur ef hann fær full laun. Þar þarf að finna einhvern skynsamlegan grundvöll og alls ekki telja til launa þegar fólk fær bætur einhver ár aftur á bak og þá er tekið af fólki næstu ár á eftir. Fólk tapar beinlínis á því að vera með aðrar tryggingar. Ofl. ofl. ofl. sem þarf að laga. Þyrfti að fá einhvern tíma hjá þér útskýringar á þessum blöðum sem ég fæ send og fæ engan botn í
Vona að maturinn hafi smakkast vel. Bið kærlega að heilsa.
Ragnhildur Jónsdóttir, 4.12.2007 kl. 00:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.