Að vera ekki eins og hinir ...

Fyrir nokkrum árum hitti ég tré. Þetta tré hafði mikla sögu að segja. Það óx og vonandi vex ennþá, fyrir utan Reykjalund. Ég var þar í endurhæfingu og á leið í göngu þegar ég sá beina röð af birkitrjám við bílastæðin. Öll trén stóðu teinrétt og falleg eins og til var ætlast, nema eitt. Það var bogið og miklu minna en hin og skar sig virkilega úr röðinni. Ég fór nær og skoðaði það betur. Það hafði greinilega einhvern tíma næstum fokið upp með rótum, þannig að myndaðist bunga á jarðveginn við eina hlið trjástofnsins. Svo hafði brotnað grein seinna en gróið fyrir. En þetta birkitré hafði vaxið lengi eftir þetta og alltaf stefnt upp á við. Allar greinarnar hversu bognar sem þær þurftu að vera, uxu upp á móti sólarljósinu.

Saumatré

Ég hef margoft heimsótt þetta tré síðan. Tekið myndir af því, teiknað það og saumað. Mér finnst það svo táknrænt, sérstaklega við Reykjalund að það var þetta tré sem vakti athygli mína. Ekki þessi beinu fallegu sem uxu eins og þau "áttu að gera".

 Við þurfum ekki öll að vera eins en við eigum öll að eiga rétt á að fá að vera við sjálf eins mikið og hægt er. Fá að vaxa upp í átt til ljóssins án þess að líða skort eða þurfa að skammast okkar.

Ég vil vekja athygli á að undirskriftasöfnunin "Leiðréttum kjör öryrkja og eldri borgara" lokar í kvöld.
Viðbót: það er hægt að skrifa undir frameftir degi í dag laugardag. Síðan verður farið með listann til Félagsmálaráðherra við hennar fyrsta hentugleika. Það er kominn tími á okkur. Það er enginn að biðja um lúxus, við erum einungis að biðja um að við fáum að njóta fullra mannréttinda.

Hjartans þakkir öll sömul sem hafið lagt þessu lið. Við vitum og finnum meðbyrinn og að skilningur fólks hefur aukist.  

Sameiginleg færsla frá okkur fjöryrkjum:

Í kvöld lokum við undirskriftarlistanum og gerum klárt í afhendingu

UNDIRSKRIFTARLISTANUM verður lokað í kvöld.  Ef þið þekkið einhverja sem eiga eftir að skrifa sig, vinsamlega fáið þá til að drífa í því. Nú verður listinn yfirfarinn af 4 manneskjum og passað upp á að allt standist.  Síðan vonumst við að komast sem fyrst til Jóhönnu og Guðlaugs, einnig stendur enn til að vera með sjónvarpsviðtöl, en það hefur tafist vegna anna á fréttastofum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingunn Jóna Gísladóttir

Ragga mín, sé ég rétt að þessi flotta mynd er útsaumuð? Hún er allavega ofboðslega falleg, minnir mig á Bonsai tré.  Kveðja Ingunn Fjöryrki

Ingunn Jóna Gísladóttir, 16.11.2007 kl. 20:18

2 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Ingunn, þetta tré er saumað, ef þú ýtir bendlinum á myndina ætti hún að stækka. Hún er reyndar líka í myndaalbúminu mínu til hliðar á síðunni. Ég er sko saumafíkill sjáðu til

Íslenskt birki eins og þetta sem ég skrifaði um lenda svo oft í áföllum en vaxa samt áfram, það er einmitt það sem gerir þau stundum lík Bonsai trjám þar sem vöxturinn er heftur og oft beygður.

Þakka þér fyrir falleg orð

Ragnhildur Jónsdóttir, 16.11.2007 kl. 21:16

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Mikið óskaplega ert þú flínk við útsauminn - þú ert hreint ótrúleg!

Greta Björg Úlfsdóttir, 17.11.2007 kl. 01:08

4 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Þakka þér innilega fyrir Gréta Björg sjáumst við ekki á fimmtudaginn?

Heiða, þakka þér innilega fyrir falleg orð. En veistu ég labbaði aldrei langt frá húsinu heldur, þetta tré stendur við húsið ... eigum við að fara í "pílagrímaferð"?

Hlakka til að hitta ykkur fjöryrkjar

Ragnhildur Jónsdóttir, 17.11.2007 kl. 11:59

5 Smámynd: hofy sig

Bara fallegt

hofy sig, 18.11.2007 kl. 12:12

6 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Flott verk,og frásögn til að hugsa um.

María Anna P Kristjánsdóttir, 18.11.2007 kl. 18:15

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég man eftir þessu litla tréi. Birkitré hafa alltaf verið mín uppáhalds.  Hlakka til að hitta þig á þriðjudaginn. Mikið óskaplega er þetta fallegur pistill og fallegur útsaumur, geturðu ekki komið með eitthvað í hittinginn sem ég keypt af þér, einhver list eftir sjálfa þig???  knús til þín mín kæra.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.11.2007 kl. 19:18

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ragga í alvöru, ef eitthvað af þessum fallegu sauma/málningarmyndum er til sölu, viltu þá taka þær með þér til Heiðu svo ég geti keypt af þér.??

Ásdís Sigurðardóttir, 18.11.2007 kl. 19:22

9 identicon

vá, rosaleg dýpt er í myndinni, hún er eins og í þrívídd!!! Snillingur!

Guðrún frænks (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 15:08

10 identicon

Sæl Ragga og þakka þér innilega fyrir samveruna í dag.  Gaman að hitta ykkur stelpurnar. 

Þessi saga er alveg dásamleg og gaman að lesa um frá hvaða sjónarhorni þú sérð þessa annars löskuðu plöntu.  Vekur mann til umhugsunar.  Sýnir fram á að það sé hreint ekkert verra að vera öðruvísi   Svo ert þú greinilega snillingur í saumaskap.  Ég bíð spennt eftir að skoða meira hjá þér. 

Hafðu það gott, ávallt!

Arna fjöryrki

Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 21:42

11 Smámynd: Ingunn Jóna Gísladóttir

Ragga, mikið ofboðslega var gaman að hittast loksins, það var yndislegt að eiga góðar stundir með ykkur Fjöryrkjunum. Takk kærlega fyrir farið austur og spjallið. Kveðja Ingunn Fjöryrki

Ingunn Jóna Gísladóttir, 20.11.2007 kl. 22:12

12 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Stelpur þið eruð æðislegar! Frábært að hittast og þamba kaffi og úða í okkur góðgerðunum með skemmtilegu spjalli.

Takk allar saman og sjáumst fljótlega aftur

Knús og kveðjur

Ragga fjöryrki 

Ragnhildur Jónsdóttir, 20.11.2007 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband