12.10.2007 | 13:30
Að vera 75% öryrki í "velferðarsamfélaginu"
Já, nú er tími "skemmtilegheitanna", bréfið frá Tryggingastofnun komið inn um lúguna ... með dóminn. Ég slepp sennilega vel miðað við marga, ætli það sé ekki vegna þess að eiginmaðurinn fékk ekki meiri kauphækkun en raun ber vitni, síðastliðið ár. Samt fékk ég rukkun um 43.975,- sem er tveir þriðju af því sem ég fæ mánaðarlega í bætur sem 75% öryrki. Fyrir þá sem halda að líf og dund heimafyrir hjá öryrkjum sé eftirsóknarvert sældarlíf, lesið tölvupóstinn sem ég fékk frá vinkonu minni í morgun:
Að vera 75% öryrki í "velferðarþjóðfélagi"
Í gær fékk ég (ásamt hundruðum annarra) áfall sem dugir mér til alvarlegra áhyggja það sem eftir er ársins.. og gott betur! Til að bæta enn um hef ég engar lífeyrissjóðsgreiðslur.
Endurkrafa frá TR um 103.013 krónur, en þessi upphæð samsvarar uþb þreföldum útborguðum mánaðargreiðslum mínum. Fyrir mér er þetta enn einn dómur samfélagsins yfir mér sem öryrkja.
1. Þegar ég varð öryrki hrundi fjárhagsgrundvöllur fjölskyldunnar.
2. Þegar ég varð öryrki missti ég sjálfstæði mitt (bótagreiðslur mínar háðar launum hans!)
3. Þegar ég varð öryrki áttum sumarbústað sem við urðum að selja. - Við fengum háan skatt þarsem hann hafði hækkað í verði á 22 árum og bæturnar lækkuðu enn. Það varð lítið eftir af "hagnaðinum" til að lifa af.
4. Ég varð að fara að vinna svolítið aftur til að mæta kostnaði (hafði reyndar gaman af því) - en við það lækkuðu bætur mínar enn.
5. Af þessum sökum hef ég reynt að taka eins mikið af verkefnum og ég mögulega treysti mér til (sem bitnar oft illa á heilsunni) og nú sit ég uppi með þessa skuld. Ég á að borga endurgreiðslu rúm 103 þúsund sem er stórfé fyrir mig og heilsan versnar í samræmi við aukna vinnukröfu.
Hvað á ég að gera?
A) Vinna meira? - það er því miður ekki hægt, ég GET EKKI unnið meira
B) Greiða þetta af skertum bótum? - Mundir þú geta gert það? - ef svo er þá býrð þú við önnur lífsskilyrði en ég. Ég óska þér til hamingju með það og vona að heilsan endist þér.
Ég er búin að gefast upp- ég get ekki meir. Því meira sem ég vinn þess verr líður mér og þess harðari eru kröfurnar sem samfélagið sýnir mér. - er þetta leiðin til að "koma öryrkjum út í atvinnulífið" ?
Bréfið er sent öllum þingmönnum Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands og öllum þeim sem mér dettur í hug héreftir
Ps- það stóð í bréfinu frá TR að mér væri "velkomið að endurgreiða ofgreiðsluna strax" - TAKK KÆRLEGA! - ég byrja strax að spara!
Hvað finnst ykkur um svona meðferð? Og það er ekki eins og þessi vinkona mín sé ein um þetta, nei, hún bara getur skrifað og þess vegna heyrist í henni en ekki hinum sem fara á hausinn þegjandi og hljóðalaust heima hjá sér....
Athugasemdir
Þetta er auðvitað bara alveg út í hött ekki meira um það að segja.
Skil ekki hvernig þetta getur verið svona.
Annars er ég ánægð með að hún hafi sent þetta á alþingi og allt það og mættu fleiri gera það. Kjör okkar lagast ekki ef við þegjum við þurfum að láta heyra í okkur til að fá hlutunum breitt.
Sirrý (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 15:59
Það er skömm af þessu ,á ekki að líðast í velferðþjóðfélagi.
María Anna P Kristjánsdóttir, 12.10.2007 kl. 16:49
Ég á að endurgreiða kr. 294.927.- Fyrir er ég að greiða niður eingreiðslu sem ég fékk frá TR í upphafi, vegna þess að mér voru reiknaðar bætur aftur í tímann. Þessa eingreiðslu átti ég svo að endurgreiða þegar ljóst var hvað ég fengi úr lífeyrissjóðnum mínum. Eingreiðsluna hafði ég notað til að greiða upp lífeyrissjóðslán sem ég var með á bakinu en langaði til að losna við. Þannig að ég samdi við TR um að taka mánaðarlega af mér fyrir endurgreiðslu eingreiðslunnar. Svo bætast þá þessi tæp þrjúhundruð þúsund við "skuldina", að því er mér virðist. Annars er ekki vel gott að botna í þessum útreikningum TR. Ég veit það eitt að enginn er ofsæll af þeim bótum sem stofnunin greiðir, þó sumir virðist álíta það sem fara með málefni hennar.
Greta Björg Úlfsdóttir, 12.10.2007 kl. 18:14
Nákvæmlega stelpur, er þetta hægt?!
Gréta, þetta er náttúrulega alveg til skammar hvernig þú lendir í þessu. Því miður er þetta ekki einsdæmi. Ég skil ekki að þetta skuli fá að viðgangast svona lengi.
Hvað getum við gert í þessu?
Ragnhildur Jónsdóttir, 12.10.2007 kl. 19:43
Það er forvitnilegt hvernig svarið verður.
Fríða Eyland, 16.10.2007 kl. 20:05
Sæll Jón Frímann, þú hittir naglann á höfuðið! Hvernig væri að stinga upp á því við alþingismenn að tengja svona launin við maka?! hahhaha Það yrði ekki mikið eftir hjá þeim þá greyjunum.
Ég vona að við fáum jákvæð svör um jákvæðar mannvinsamlegar breytingar fljótlega. Ég er alveg sammála með það að þetta óásættanlegt og siðlaust og ég held að flestum finnist það (öllum sem eitthvað hafa kynnt sér málið).
Bestu fjöryrkjakveðjur Jón Frímann
Ragnhildur Jónsdóttir, 25.10.2007 kl. 10:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.