2.10.2007 | 13:06
"Hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar"...
..... ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ég á að þora út á þennan hála ís einu sinni enn að ræða um þetta mál. Fólk verður svo reitt og skammast og hendir svívirðingum hvert í annað. En .... ég get ekki orða bundist. Ég ákvað að segja ykkur aðeins frá minni reynslu.
Ég er með vefjagigt og síþreytu og hef verið með þetta sennilega í allavega 25 ár. Hvorki "hefðbundnir læknar" né "óhefðbundnir" fundu út með öllum sínum rannsóknum og myndatökum og blóðprufum og "andlega skanni" hvað var að mér, svo ég var álitin þreytt og pirruð kona, í mörg ár, ég sjálf taldi mig náttúrulega snar ruglaða....!
Það þarf varla að taka það fram að bæði "óhefðbundnar og hefðbundnar" aðferðir kosta fullt af pening. Myndatökur, blóðrannsóknir, nálastungur, læknisheimsóknir, höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð, vítamínkúrar, lyf, heilun, nudd, sérfæði ...... osfrv... þetta kostar allt saman helling (miklu meira en öryrki á örorkubótum hefur efni á).
En sem betur fer fann einn góður "hefðbundinn læknir" hvað var og er að mér, þannig að ég fékk, að ég hélt, uppreisn æru. En þá komst ég að öðru, ALLIR vissu betur en ég hvað væri best fyrir mig að gera. "Hefðubundnir læknar", "óhefðbundnir kuklarar" og vinir og kunningjar, allir eru með lausn fyrir mann en ekkert virkar. Allt frá því að segja mér að fara í ljós! (já í alvöru) og til þess að taka tonn af lyfjum. Ég komst að því fyrir rest, eftir margar tilraunir, "hefðbundnar og óhefðbundnar", marga rándýra og erfiða kúra, nudd og æfingar og lyfjameðferðir að gera eins og mér finnst. Mín meðferð felst í því að taka smávegis af lyfjum sem "hefðbundinn læknir" útvegar mér. Fara í heilun hjá "óhefðbundnum meðferðaraðila", passa mataræðið (án þess að vera á erfiðum kúr), stunda hugleiðslu og gönguferðir í náttúrunni og nota svo vel þann tíma sem ég hef úr að moða, til að gera eitthvað skemmtilegt. En það erfiðasta af öllu er að reyna að líta framhjá því þegar allt þetta "vel meinandi fólk" er að segja mér til eins og því finnist sjálfsagt að það viti betur en ég um mig og minn sjúkdóm. Og svo hið algjörlega óþolandi, sem er ástæðan fyrir skrifum mínum núna; að lesa og heyra hroka og fordóma fólks, sem hefur ekki hugmynd um hvað það er að segja.
Málið er að hvorki "hefðbundinn né óhefðbundinn" meðferðaraðili getur læknað þetta EN það er hægt að gera margt sem hjálpar manni að líða betur, minnka verki og gera lífið skemmtilegra og þar með auka hjá manni lífsgæðin (og kannski lengja lífið eða allavega viljann til að lifa því...). Mér finnst best að nota ýmsar aðferðir í bland og eftir því hvað við á hverju sinni. Það eru hins vegar til fleiri milljónir manna með vefjagigt og/eða síþreytu (ég tek vefjagigt bara sem dæmi, af því það er mitt dæmi) um allan heim og ég er sannfærð um að hver og einn hefur sína sögu að segja. Það hentar aldrei nákvæmlega það sama tveimur einstaklingum.
Að leggja ákveðna meðferðaraðila í einelti vegna þess að þeir reyna að hjálpa fólki er alveg hræðilega ljótt og ósanngjarnt. Ég ætlast ekki til að "hefðbundni" læknirinn minn lækni mig, ég ætlast til þess að hann hjálpi mér að eiga við sjúkdóminn og hann gerir það. Alveg eins er með alla aðra meðferðaraðila mína, heilarann minn og fjölskylduna, vinina, dýrin mín, englana og álfana, þeir eru að reyna að hjálpa eins og hægt er.
Og svona í lokin vil ég benda á frábæra heimasíðu um vefjagigt. Þessi grein sem ég set linkinn á er um próf sem gott er fyrir "heilbrigða" að gera til þess að reyna að skilja. Mæli með að fólk taki þetta próf áður en þeir fara að reyna að segja öllum veikum til um hvað sé rétt fyrir þá og hvað ekki.
Og svo las ég á forsíðu Blaðsins í dag að súkkulaði vinni gegn síþreytu! ........ hmmm ég hef nú margreynt þetta en ekki læknast...... en ég borða það samt, því mér finnst súkkulaði svo gott að mér líður vel af að borða það.
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil, Ragnhildur, þú hittir naglann á höfuðið varðandi það að engir tveir einstaklingar eru eins og það er misjafnt hvað hentar hverjum, það er ekki til neinn "allsherjarkúr". Hver og einn verður að finna út hvernig hann getur best lifað með sínum sjúkdómi, ef ekki finnst lækning, og eins og þú segir þá er mest um vert að finna sem mesta gleði í góðum stundum. Mér finnst líka athyglisvert það sem þú segir að lækningaaðilarnir þínar séu að hjálpa þér að kljást við sjúkdóminn, alltof oft ætlast fólk til að þessir aðilar hafi "patentlausnir" á reiðum höndum.
Jamms, mér finnst líka gott súkkulaði, og best finnst mér 77% súkkulaði, sem er líka hollast. Ég er yfirleitt svo heppin að í mínu tilviki er hollt líka best!
Greta Björg Úlfsdóttir, 2.10.2007 kl. 16:59
Takk fyrir frábæran pistil.Ég tek undir það sem Gréta Björg segir að hver og einn verður að finna hvað er best fyrir viðkomandi,ennfremur að læknar eru að hjálpa okkur ,sama hvort það séu hefðbundnir læknar eða óhefðbundnir.Mér sýnist þú alveg vera á réttri leið til að láta þér líða betur með þinn sjúkdóm,útivera,hugleiðing,fjölskyldan og dýrin hvað getur það verið betra.
María Anna P Kristjánsdóttir, 2.10.2007 kl. 18:53
Gallinn við sumar "óhefðbundnar" lækningar er að sumar þeirra a.m.k. eru hreinlega bara peningaplokk.
En ég þekki alveg þessi "góðu" ráð og það að allir telji sig hafa meira vit á veikindum annarra en sá veiki sjálfur. Sjálf lenti ég í bílslysi og á tímabili rigndi yfir mig óumbeðnum ábendingum varðandi þennan og hinn kírópraktorinn, höfuðbeina- og spjaldhryggjameðferð, nuddarann, heilarannn og ég veit ekki hvað. Eflaust er þetta vel meint, en...
Svala (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 19:08
Þakka ykkur fyrir kommentin
Ragnhildur Jónsdóttir, 3.10.2007 kl. 00:33
Ég verð að bæta aðeins við: Svala, þú talar um gallann við sumar "óhefðbundnar" lækningar, að þær séu oft peningaplokk. Það má örugglega vel vera en hins vegar finnst mér ekki síður peningaplokk í hinum "hefðbundna" læknageira. Bæði er mjög dýrt að fara oft til læknis og meðferðir af ýmsum toga eru dýrar og ekkert endilega alltaf til bóta. Tilfellið er að ALLT kostar pening, svo finnst manni það "peningaplokk" ef það virkar ekki fyrir mann en sjálfsagt að borga það sem reynist virka. En gallinn er að maður veit það ekkert fyrr en eftirá
En takk fyrir góðar athugasemdir öll sömul.
Ragnhildur Jónsdóttir, 3.10.2007 kl. 12:33
Vera úti í náttúrunni, hugleiðsla, súkkulaði og að gera eitthvað sem er skemmtilegt, linar þrautir, engin spurning, Ragnheiður
Fríða Eyland, 4.10.2007 kl. 13:16
Já Fríða, það er svo sannarlega satt og hver og einn verður að finna sína leið, þá leið sem hentar best.
Ragnhildur Jónsdóttir, 4.10.2007 kl. 19:21
Verð bara að deila reynslusögu...hefðbundnir læknar sögðu ekkert hægt að gera.Endar í hjólastól unga kona og verður að lifa með því..ekkert sem við getum gert. Og unga kona grét örlög sín. Svo kom til sögunnar Gamall maður með MJÖG óhefbundna lækningu. Tveimur dögum seinna varð unga konan fyrir sérkennilegri reynslu sem setti allt í rétt samhengi og hefur ekki fundið fyrir síðan. Er hvorki örkumluð eða í hjólastól. Labbar um allt og gerir sitt eins heilbrigð og hægt er að vera. Allt sem vísindalega sannaðar meðferðir gátu ekki ráðið við urðu að engu þegar gamli maðurinn gerði vinnuna sína. Hún er alheil í dag. Látum ekki voninni lokið þó sumir skilji ekki leiðina. Það er alltaf von og leið
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 6.10.2007 kl. 21:04
Katrín, mikið er þetta sterk saga. Já það er svo sannarlega satt og margreynt að maður á aldrei að gefa upp vonina.
Þakka þér fyrir,Katrín að deila sögunni, það gefur orku, birtu og jafnvel aukna von að heyra svona reynslusögu. Yndislegt
Ragnhildur Jónsdóttir, 7.10.2007 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.