Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

"Imagine all the people, living life in peace..."

Fyrir rosalega mörgum árum, þegar ég var 16 ára heyrði ég Imagine með John Lennon, í fyrsta skipti. Ég var í nýrri kirkju í Skotlandi með hóp af krökkum á mínum aldri, frá mörgum löndum Evrópu. Það var engin altaristafla í kirkjunni, aðeins hvítur veggur. Allt í einu hljómar af hljómplötu þetta lag: "Imagine". Þetta var ógleymanleg stund og hefur enn áhrif á mig þegar ég hugsa um hana.

Halo"Imagine all the people, living life in peace...."Halo

Til hamingju með daginn! Ég hlakka til að sjá Friðar-ljós-súluna skína í kvöld. Alveg dásamleg hugmynd! 

 

Meiningin var að setja inn youtube video með John Lennon að flytja þetta lag en,...... tæknikunnátta mín náði ekki svo langt í dag. Svo, skellið ykkur bara sjálf á Youtube.com og flettið upp Imagine... Woundering 

 


Litir og form....

Fallegir litir og fögur form: gott fyrir sálina. Þegar litir og form raða sér upp og mæta hvort öðru af virðingu og í samvinnu þá verður til smitandi sköpunarkraftur. Eða verða litirnir og formin til fyrir sköpunarkraft?..... Þetta er eilíf hringrás sköpunarkrafts og fegurðar.

Litafegurd 1000

Ein sýn vekur hugmynd um aðra og jafnvel heila sögu, röð hug-mynda ....

ull og snælda

Hvað skyldi koma út úr þessari samsetningu lita? Hvaða form munu verða sköpuð úr þessum litum? Verður heil saga úr þessu? ..smá spotti?... eða mynd?

Sú hugsun þarf að fylgja mér inn í svefninn. Kannski skapast eitthvað í draumalandinu sem fylgir mér áfram inn í næsta dag.

Hvaða form sérð þú myndast út úr þessum litum og efnivið?

 


Gigtargangan í dag

Í dag er gigtargangan í Reykjavík og gott að minna á þennan stóra hóp fólks sem á við sinn gigtarsjúkdóm daglega alla ævi. Það eru margar tegundir gigtar og mis"sjáanlegar". Þeir sem ekki þekkja til, skilja oft ekki hvað er að eiga við verki (og ýmislegt annað) alla daga. En það er frábært og skemmtilegt einfalt próf á vefjagigtarvefnum www.vefjagigt.is fyrir þá sem vilja reyna að skilja meðbræður sína. Svo má ég kannski benda á "Reynslusöguna" mína sem er þar inni Wink saga með brosi Happy en ..þungum undirtón...... FootinMouth ...

Eftirfarandi texti er tekinn af heimasíðu gigtarfélagsins: www.gigt.is  :

Fimmtudaginn 4. október mun gigtarfólk ganga með fjölskyldum sínum og vinum frá Lækjartorgi upp á Skólavörðuholt undir kjörorðinu "Gigtin gefur.."  

Við göngum til að vekja athygli á því.. 

  • að börn og ungt fólk er með gigtarsjúkdóma
  • að við erum mörg sem eigum við gigtarsjúkdóma að stríða og yngri en flestir halda.
  • að snemmgreining gigtarsjúkdóma skiptir öllu máli.

10 til 14 börn greinast með alvarlegan gigtarsjúkdóm á ári.

60.000 Íslendingar eru með gigt, eða annan stoðkerfisvanda.

 

Gigtargangan:

17:00 - Safnast verður saman á Lækjartorgi

17:20 - Upphitun fyrir gönguna

17:30 - Gangan hefst, gengið verður upp Bankastræti og Skólavörðustíg

18:30 - Lok göngu á Skólavörðuholti

18:10 - Göngufólki boðið að hlusta á stutt orgelverk í Hallgrímskirkju að göngu lokinni.  

Við mælum með að þeir sem erfiðast eiga með gang komi inn í gönguna við Bergstaðastræti og skrái sig á skrifstofunni. 

"Gigtin gefur.."

  • Dugnaður, útsjónarsemi og einurð eru eiginleikar sem gigtarfólk stendur fyrir.
  • Meðferðarúrræði við gigtarsjúkdómum eru góð fjárfesting.
  • Rannsóknir á gigtarsjúkdómum eru undistaða bættra úrræða.

Skráning er á skrifstofu Gigtarfélagsins og á Lækjartorgi fyrir gönguna. Allar frekari upplýsingar er að fá á skrifstofu GÍ í síma 530 3600. 

Við viljum samfélag fyrir alla. Göngum og verum sýnileg!

 Sjáumst!!!! Smile


"Hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar"...

..... ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ég á að þora út á þennan hála ís einu sinni enn að ræða um þetta mál. Fólk verður svo reitt og skammast og hendir svívirðingum hvert í annað. En .... ég get ekki orða bundist.  Ég ákvað að segja ykkur aðeins frá minni reynslu.

Ég er með vefjagigt og síþreytu og hef verið með þetta sennilega í allavega 25 ár. Hvorki "hefðbundnir læknar" né "óhefðbundnir" fundu út með öllum sínum rannsóknum og myndatökum og blóðprufum og "andlega skanni" hvað var að mér, svo ég var álitin þreytt og pirruð kona, í mörg ár, ég sjálf taldi mig náttúrulega snar ruglaða....!

Það þarf varla að taka það fram að bæði "óhefðbundnar og hefðbundnar" aðferðir kosta fullt af pening. Myndatökur, blóðrannsóknir, nálastungur, læknisheimsóknir, höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð, vítamínkúrar, lyf, heilun, nudd, sérfæði ...... osfrv... þetta kostar allt saman helling (miklu meira en öryrki á örorkubótum hefur efni á).  

En sem betur fer fann einn góður "hefðbundinn læknir" hvað var og er að mér, þannig að ég fékk, að ég hélt, uppreisn æru. En þá komst ég að öðru, ALLIR vissu betur en ég hvað væri best fyrir mig að gera. "Hefðubundnir læknar", "óhefðbundnir kuklarar" og vinir og kunningjar, allir eru með lausn fyrir mann en ekkert virkar. Allt frá því að segja mér að fara í ljós! (já í alvöru) og til þess að taka tonn af lyfjum. Ég komst að því fyrir rest, eftir margar tilraunir, "hefðbundnar og óhefðbundnar", marga rándýra og erfiða kúra, nudd og æfingar og lyfjameðferðir að gera eins og mér finnst. Mín meðferð felst í því að taka smávegis af lyfjum sem "hefðbundinn læknir" útvegar mér. Fara í heilun hjá "óhefðbundnum meðferðaraðila", passa mataræðið (án þess að vera á erfiðum kúr), stunda hugleiðslu og gönguferðir í náttúrunni og nota svo vel þann tíma sem ég hef úr að moða, til að gera eitthvað skemmtilegt. En það erfiðasta af öllu er að reyna að líta framhjá því þegar allt þetta "vel meinandi fólk" er að segja mér til eins og því finnist sjálfsagt að það viti betur en ég um mig og minn sjúkdóm.  Og svo hið algjörlega óþolandi, sem er ástæðan fyrir skrifum mínum núna; að lesa og heyra hroka og fordóma fólks, sem hefur ekki hugmynd um hvað það er að segja.

Málið er að hvorki "hefðbundinn né óhefðbundinn" meðferðaraðili getur læknað þetta EN það er hægt að gera margt sem hjálpar manni að líða betur, minnka verki og gera lífið skemmtilegra og þar með auka hjá manni lífsgæðin (og kannski lengja lífið eða allavega viljann til að lifa því...). Mér finnst best að nota ýmsar aðferðir í bland og eftir því hvað við á hverju sinni. Það eru hins vegar til fleiri milljónir manna með vefjagigt og/eða síþreytu (ég tek vefjagigt bara sem dæmi, af því það er mitt dæmi) um allan heim og ég er sannfærð um að hver og einn hefur sína sögu að segja. Það hentar aldrei nákvæmlega það sama tveimur einstaklingum. 

Að leggja ákveðna meðferðaraðila í einelti vegna þess að þeir reyna að hjálpa fólki er alveg hræðilega ljótt og ósanngjarnt. Ég ætlast ekki til að "hefðbundni" læknirinn minn lækni mig, ég ætlast til þess að hann hjálpi mér að eiga við sjúkdóminn og hann gerir það. Alveg eins er með alla aðra meðferðaraðila mína, heilarann minn og fjölskylduna, vinina, dýrin mín, englana og álfana, þeir eru að reyna að hjálpa eins og hægt er.  

Og svona í lokin vil ég benda á frábæra heimasíðu um vefjagigt. Þessi grein sem ég set linkinn á er um próf sem gott er fyrir "heilbrigða" að gera til þess að reyna að skilja. Mæli með að fólk taki þetta  próf áður en þeir fara að reyna að segja öllum veikum til um hvað sé rétt fyrir þá og hvað ekki.  

Og svo las ég á forsíðu Blaðsins í dag að súkkulaði vinni gegn síþreytu! ........ hmmm ég hef nú margreynt þetta en ekki læknast...... en ég borða það samt, því mér finnst súkkulaði svo gott að mér líður vel af að borða það. Halo 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband