Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Pólitík og farfuglar: er komið vor?

Farfuglarnir komnir margir hverjir og pólitíkin tekur völd en enn berjast vetur konungur og vorið. Snjór, sólskin, hlýja, kuldi, vindur og logn. En við vitum að bráðum sigrar vorið og sumarið eftir það.

Pólitíkin er með sama móti, þar berjast vetur og vor. Hún er ólíkindatík, þessi pólitík, eins og einhver sagði. Hvers vegna finnst fólki það alltaf þurfa að rífast þegar talað er um pólitík? ég bara spyr. Ég hélt í einfeldni minni að pólitíkusar færu yfirleitt í slaginn (já einmitt, slaginn) vegna hugsjónar um betra líf í landinu, öllum til heilla. Það væru bara misjafnar áherslur og úrræði, eins og gengur. En ég held satt að segja að margir fari í og tali um pólitík aðeins til þess að fá útrás og afsökun til að rífast. 

Hvernig væri að við reyndum að snúa þessu við?! Skoðum vorið og pólitíkina með bros á vör, reynum að vinna saman að bjartara og betra landi að búa í.

Ég á eina tík af blönduðu hundakyni, hún heitir Pollýanna og hefur alltaf staðið fyllilega undir nafni. Hún huggar, hlustar, ver okkur og er góður og traustur félagi.  Prófum að taka Pollýönnu til fyrirmyndar í umræðu um pólitík. 

Gleðilegt vor með öllu sem því fylgir Smile

 


"Betri er álfur en álver!"

Þessu hvíslaði lítill grænn álfur að mér, fullur vonar um betri og grænni tíma. Í þessum einfalda álfa málshætti felst djúp meining. Hugsum um hana hvert fyrir sig....

Í dag, Páskadag minnumst við upprisu Krists. Í leiðinni minnumst við allra þeirra tíma í okkar eigin lífi sem kalla má "upprisu", þegar við rísum upp aftur eftir veikindi eða fall eða rísum úr neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Rísum upp frá neikvæðri stefnu til jákvæðrar. 

Nú er tíminn til að leiða hugann að þeirri framtíð sem við viljum sjá á Íslandi. Innst inni viljum við öll rísa upp til bjartari og betri tíma. Fá að anda að okkur fersku lofti sem eflir hugann enn frekar til nýsköpunar og uppbyggingar.

Ég segi fyrir mig, ég er algjörlega sammála hinum vongóða, fallega, gegnum græna álfi sem sagði svo brosandi og hamingjusamur: "Betri er álfur en álver." 

HeartGleðilega páska! 


Sunnudagsbíltúr

Við skruppum í bíltúr á Reykjanesið. Alltaf skemmtilegt að keyra um þessa hráu, fallegu og sérstöku náttúru. Maður sér alltaf eitthvað nýtt, eitthvað sem dregur athyglina og fangar hjartað.

Kleifarvatnið svo dularfullt, svo djúpt það gæti alveg hreint hýst skrýmslið ennþá. Hverirnir sífellt breytilegir, maður veit aldrei hvað gerist þar næst. Land sem er ennþá að fæðast, stöðugt að þróast og aldrei eins.

Draugar, dvergar, tröll og aðrir vættir fylgjast með, undrandi og áhyggjufullir á svip. Er þetta fólkið sem ræður hvað verður um okkur? Er þeim sama? Vita þau að við erum hér....? 

 

sjá myndir neðar til vinstri á síðunni. 


Framtíðin byrjar í Hafnarfirði

Úrslitin eru ljós í Hafnarfirði:  Ekki stækkun á álverinu í Straumsvík! Þvílík spenna í bænum mínum. En nú er þetta á enda og fólk getur farið að anda aftur. Ég vona að fermingarveislurnar á næstunni verði friðsamar... 

Nú förum við að byggja upp grænna og vænna samfélag. Ekki þar fyrir að Hafnarfjörður er mjög vænn bær og hefur alltaf verið. Álverið verður þarna áfram í mörg ár enn, það er ekkert atvinnuleysi í Hafnarfirði svo þetta er í góðu lagi.

Nú verðu spennandi að sjá hvernig kosningabaráttan í vor fer. Það er greinilegt að umhverfismál er málið í dag. Við erum að sigla inn í nýja tíma, gamli grái tíminn er að hverfa, við viljum hreina bjarta framtíð. Framtíð sem er fyllt vonum og bjartsýni, öflugum tækifærum og nýsköpun, jafnræði fyrir alla.

Kíkið á nýja heimasíðu Íslandshreyfingarinnar - Lifandi land: www.islandshreyfingin.is  þar liggur framtíðin...

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband